Skipherrann á Tromsø íhugar að beita rússneskan togara vopnavaldi inni í rússneskri efnahagslögsögu

Mánudagur 17. október 2005.

Skipherra norska strandgæsluskipsins KV Tromsø íhugar að beita rússneska togarann Elektron vopnavaldi þar sem skipstjóri rússneska skipsins neitaði að hlýða fyrirmælum og sigldi frá strandgæsluskipinu með tvo norska varðskipsmenn um borð í gærmorgun.

Togarinn var stöðvaður vegna eftirlits sl. laugardag og tveir norskir fiskveiðieftirlitsmenn frá strandgæsluskipinu fóru um borð.  Þá voru skipin stödd á Barentshafi nálægt landamærum svæðis þar sem deilur standa um rétt til fiskveiða. Skipstjóri Elektron fékk fyrirmæli um að halda til Tromsø eftir að varðskipsmennirnir höfðu komist að raun um að togarinn notaði ólögleg net og veiddi undirmálsfisk á eftirlitssvæðinu sem Norðmenn telja vera undir lögsögu Noregs.

 
Norska strandgæslan hafði lýst því formlega yfir við skipstjóra rússneska togarans að hann væri handtekinn og hann samþykkti þau fyrirmæli að sögn Steve Olsen yfirmanns norðurdeildar norsku strandgæslunnar.   Eftir það sigldi skipstjóri togarans í átt til Tromsø eins og fyrir hann var lagt en breytti svo skyndilega um stefnu í gærmorgun.  Áhöfn togarans heldur því fram að hún hafi fengið tilmæli frá rússneskum yfirvöldum að hunsa fyrirmæli norskra yfirvalda.  Seinna kom áhöfnin með aðra yfirlýsingu þar sem því var haldið fram að rússnesk stjórnvöld hefðu skipað áhöfninni að sigla inn í rússneska lögsögu.

Norska strandgæsluskipið KV Tromsø hélt í humátt á eftir rússneska togaranum í gegnum umdeilda veiðisvæðið og inn í 200 sjómílna rússnesku efnahagslögsöguna í Barentshafi og eru skipin nú að nálgast 12 sjómílna landhelgi Rússlands.  Norðmenn hafa lagalegt vald til að beita rússneska skipið valdi þar til það kemst inn í 12 sjómílna landhelgina en veðrið er svo slæmt að strandgæslan hefur ekki komið fleiri mönnum um borð í togarann.  Þess vegna eru Norðmennirnir að velta því fyrir sér að skjóta á togarann til að stöðva hann.  Einnig hefur skipherrann á Tromsø þann möguleika að nota þyrlu til að koma fleiri varðskipsmönnum um borð í togarann.

Utanríkisráðuneyti Noregs og Rússlands hafa verið í sambandi síðan á laugardagsmorgun. Talsmaður norska sjóhersins sagði að ekkert benti til þess að illa væri farið með norsku varðskipsmennina um borð í Elektron. 
Þetta kemur fram á heimasíðu Aftenposten í dag á slóðinni:
http://www.aftenposten.no/


Lausleg þýðing: DS.