LHG tók þátt í málþingi um öryggismál á Norðurslóðum

Fimmtudagur 3. apríl 2014

Landhelgisgæslan tók í gær þátt í málþingi Háskóla Íslands um öryggismál á Norðurslóðum. Rætt var um málefni sem hafa hvað mesta þýðingu fyrir stjórnvöld varðandi þróun svæðisins, samstarf Norðurskautsráðsins en Kanada fer nú með formennsku þess, helstu áskoranir, gagnaöflun, úrvinnslu og viðbragðsáætlanir.

Snorre Greil, stýrimaður hjá Landhelgisgæslu Íslands fjallaði um það sem snýr að leitar- og björgunarmálum á svæðinu og getu Íslendinga við að bregðast við slysum innan leitar- og björgunarsvæðisins. Breytingar eru fyrirsjáanlegar með auknum siglingum og nauðsynlegt er að vera í góðu samstarfi og upplýsingaskiptum við björgunaraðila á Norður Atlantshafi, þ.e. Danmörku, Grænland, Færeyjar, Norðmenn, Kanada og Bandaríkin.  Æfingin SAREX Greenland er mikilvægt skref í því samstarfi en hún er haldin af þjóðum Arctic Council –Norðurskautsráðsins sem er samstarfsvettvangur þeirra ríkja sem liggja að Norðurheimskautssvæðinu.

Á málþinginu tóku einnig til máls kanadíski sendiherrann, Stewart Wheeler, Jóhann Sigurjónsson frá Hafrannsóknastofnun, Anna Karlsdóttir, lektor og Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands og Gísli Viggósson, frá Samgöngustofu, áður Siglingastofnun.