Tvær aðstoðarbeiðnir sem leystust á skömmum tíma

Sunnudagur 27. apríl 2014

Talsverður erill var hjá Landhelgisgæslunni skömmu eftir hádegi í dag þegar tvær aðstoðarbeiðnir bárust með skömmu millibili. Neyðarlínan upplýsti stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:55 um að karlmaður á sextugsaldri hefði slasast á ökkla á Laugarnípu í Esjunni. Maðurinn væri ógangfær og búið væri að boða út björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í nágrenninu.

Hittist þá svo vel á að þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SYN var á heimleið úr venjubundnu æfingarflugi, og var henni beint á staðinn. Hálftíma síðar eða kl. 13:35 var sjúklingurinn kominn um borð í þyrluna, og var hann fluttur á Reykjavíkurflugvöll, þaðan sem sjúkrabíll flutti hann svo á sjúkrahús, til aðhlynningar.

Skipstjóri á 7 tonna bát hafði síðan samband við Landhelgisgæsluna kl. 13:27,  var hann staddur rétt utan við innsiglinguna til Sandgerðis. Stýri bátsins hafði bilað og var búið að varpa út akkeri. Óskaði skipstjóri eftir aðstoð við að komast inn til hafnar. Haft var samband við bát sem var í um 2 sml fjarlægð, og var hann fenginn til að draga hinn bilaða bát til hafnar í Sandgerði. Kl. 14:04 voru báðir bátarnir komnir að bryggju í Sandgerði.