Veiðar að hefjast á Reykjaneshrygg - TF-SIF flaug yfir svæðið

Miðvikudagur 30. apríl 2014

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar fór í gær í löggæslu- og eftirlitsflug á Reykjaneshrygg og suður fyrir efnahagslögsögumörkin til að kanna stöðu á úthafskarfamiðum. Samtals eru nú fjórtán rússnesk skip skráð til veiða og voru þau öll auðkennd með nafni og kallmerki. Tíu rússneskir togarar eru staðsettir við lögsögumörkin en fjórir togarar stefna á miðin. Veiðar þjóðanna sem tilheyra NEAFC hefjast þann 15. maí  næstkomandi og má því reikna með að skipum á svæðinu fjölgi umtalsvert á næstunni.

Erlendu karfaskipin eru eins og vorboðinn og koma ávallt á svipuðum tíma á miðin.  Búast má við að þeim fjölgi talsvert á næstunni.

NEAFC Fiskveiðinefndin starfar samkvæmt samningi frá 18. nóvember 1980, sem tók gildi 1982. Samningssvæðið er Norðaustur Atlantshaf, Norður Íshaf, og Barentshaf samkvæmt tilgreindri afmörkun í samningnum sjálfum. Aðilar að NEAFC, auk Íslands, eru Danmörk (fyrir hönd Færeyja og Grænlands), Evrópusambandið, Noregur og Rússland.

Markmið samningsins er að stuðla að verndun og bestu nýtingu fiskveiðiauðlinda á svæðinu. Nefndin getur gert bindandi samþykktir varðandi fiskveiðar utan fiskveiðilögsögu samningsríkjanna í úthafinu, m.a. um heildaraflamark, úthlutað veiðiheimildum og gert ráðstafanir um eftirlit með veiðunum. Ríki geta þó undanþegið sig ákvörðunum ráðsins með því að gera fyrirvara um samþykktir þess. Íslendingar hafa helst verið að veiða úthafskarfa, norsk íslenska síld og kolmunna úr stofnum er lúta að NEAFC.

Sjá heimasíðu NEAFC og kort af svæðunum.