Landhelgisgæslan tók þátt í ráðstefnu Frontex með ríkislögreglustjóra og lögreglunni á Suðurnesjum.

Miðvikudagur 28. maí 2014

Starfsmenn Ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunnar og embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum tóku nýverið þátt í ráðstefnu og sýningu Frontex – Landamærastofnunar Evrópusambandsins sem haldin var í Varsjá. Ráðstefnan sem kallast European day for Border Guards er haldin árlega og í þetta sinn tóku um 800 manns frá 36 þjóðum þátt sem er umtalsverð fjölgun frá sl. ári. Markmiðið með ráðstefnunni er að stefna saman starfsmönnum þjóða sem koma að landamæravörslu innan Evrópu, miðla reynslu og ræða málefni sem eru efst á baugi, fara yfir árangur síðastliðinna ára auk þess að kynna starfsemi stofnananna í heimalöndum sínum.

Marvin Ingólfsson frá séraðgerða og sprengjueyðingasviði Landhelgisgæslunnar tók þátt í pallborði ráðstefnunnar sem bar heitið  „Migrants at sea – high expectations, limited solutions“ og var umræðum stjórnað af Benjamin Tallis sem stundar rannsóknir við háskólann í Manchester og er lektor í alþjóðastjórnmálum við Anglo-American University í Prag. Þar fór Marvin yfir þá reynslu sem Landhelgisgæslan hefur öðlast í verkefnum fyrir Frontex þar sem flugvélin TF-SIF og varðskipin hafa verið við leit, björgun og eftirlit á Miðjarðarhafi.

Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslan og embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum voru með sameiginlegan kynningarbás á ráðstefnunni sem var afar vel heimsóttur af samstarfsaðilum. Þar var kynnt starf löggæslunnar hér á landi, sýnt myndefni og boðið upp á grænan Tópas í sérmerktum umbúðum íslensku löggæsluaðilanna.

Á heimasíðu ráðstefnunnar má nálgast frekari upplýsingar og sjá upptökur af fyrirlestrum, pallborðum ofl. Sjá hér http://www.ed4bg.eu/home