Áhafnir þyrlunnar Lífar og flugvélarinnar Synjar björguðu skipverja af bandarískri skútu

Þriðjudagur 27. september 2005.

 

Neyðarkall barst kl. 2:17 í nótt um gervihnött frá neyðarsendi til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar/vaktstöðvar siglinga.  Samkvæmt neyðarkallinu var neyðarsendirinn staðsettur rúmlega 90 sjómílur norðvestur af Straumnesi við Ísafjarðardjúp.  Í framhaldi af því var farið að kanna skipaferðir á svæðinu og athuga hvort þau væru í nauðum.  Einnig var samband við björgunarstjórnstöðvar í nágrannalöndunum til að spyrjast fyrir um uppruna neyðarbaujunnar og skipaferðir. 

 

Þær upplýsingar fengust að lokum frá björgunarstjórnstöðinni í Norfolk í Bandaríkjunum að umrædd neyðarbauja tilheyrði bandarískri skútu sem heitir Vamos og að vitað væri að skútan væri á þessu hafsvæði með tvo menn um borð. Í framhaldi af því  náðist samband við norskan línuveiðara sem hélt sjó um fjórtán sjómílum frá þeim stað er neyðarbaujan var á. Vegna veðurs treysti skipstjórinn sér ekki til að athuga með skútuna enda var fárviðri á svæðinu, vindur um 30 metrar á sekúndu.  Sagðist hann hafa nóg með að halda skipinu til.  Að hans sögn var 10-15 metra ölduhæð á svæðinu og lélegt skyggni.

 

Líf, stærri þyrla Landhelgisgæslunnar, fór frá Reykjavík kl. 5:40 og Syn, flugvél Landhelgisgæslunnar kl. 6:13. Nauðsynlegt var að senda flugvélina auk þyrlunnar til að leita að skútunni fyrir þyrluna og jafnframt til öryggis fyrir þyrluáhöfnina. Áhöfn Synjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar, fann skútuna kl. 8:07 og gat því leiðbeint þyrlunni á réttan stað.  Líf kom að skútunni um kl. 8:30 og var einn maður um borð.  Honum var bjargað um borð í þyrluna og lenti hún á Reykjavíkurflugvelli um kl. 11.  Samkvæmt upplýsingum skipverjans fékk skútan á sig brot um kl. 12:15.  Skútan lagðist þá á hliðina, mastrið brotnaði og annar skipverjinn féll fyrir borð.

 

Að sögn Björns Brekkan Björnssonar þyrluflugmanns var mótvindur alla leiðina og vindhraði um 20-30 metrar á sekúndu og þegar komið var á svæðið var áhöfn Synjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar, búin að finna skútuna og kom það sér mjög vel enda hafði þyrlan takmarkað flugþol á svæðinu.  Þegar Líf kom að skútunni var hún á flatreki og mastrið brotið. Áhöfn flugvélarinnar Synjar hafði þá náð sambandi við skipverjann um borð og fengið upplýsingar um ástand hans. Hann kom því strax til skila að hann væri í góðu ásigkomulagi og sáu áhafnir Lífar og Synjar hann aftur í skut skútunnar.  Hann treysti sér til að koma sér sjálfur í björgunarlykkju og kom það sér vel því þá þurfti sigmaður ekki að fara niður til hans enda getur verið erfitt að athafna sig í kringum víra og möstur við svona aðstæður. Hífingin gekk mjög vel og tók aðeins 5 mínútur.  Eftir að maðurinn var kominn um borð var hafin leit að týnda félaga hans en sökum takmarkaðs flugþols þyrlunnar var aðeins hægt að leita í skamma stund á henni.  Flugvélin Syn hélt leit áfram í rúma klukkustund. Leitin bar ekki árangur.

 

Líf kom við á Rifi til að taka eldsneyti í bakaleiðinni og lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 11:09.  Flugvélin Syn hafði lent  á Reykjavíkurflugvelli kl. 10:24.

 

Dagmar Sigurðardóttir

lögfræðingur/upplýs.ftr.

Hafsteinn Heiðarsson flugmaður Synjar tók þessa mynd í morgun af þyrlunni Líf fyrir ofan skútuna Vamos.



Áhafnir Synjar og Lífar. Efri röð frá vinstri: Guðmundur Emil Sigurðsson stýrimaður á flugvélinni Syn, Hafsteinn Heiðarsson flugmaður á Syn, Auðunn F. Kristinsson stýrimaður á Syn, Páll Geirdal yfirstýrimaður á Syn og Pétur Steinþórsson flugstjóri á Syn. Neðri röð frá vinstri: Hörður Ólafsson læknir þyrlunni Líf, Reynir G. Brynjarsson flugvirki/spilmaður á Líf, Björn Brekkan Björnsson flugmaður á Líf, Magnús Örn Einarsson yfirstýrimaður/sigmaður á Líf og Jakob Ólafsson flugstjóri á Líf.