Vísindamenn fljúga með TF-SIF

Miðvikudagur 20. ágúst 2014

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF fór í loftið um kl. 13:00 með hóp vísindamanna um borð. Markmið flugsins er að safna gögnum með ratsjár- og eftirlitsbúnaði flugvélarinnar og er vonast til að flugið skili niðurstöðum sem hægt verður að nota til að meta enn frekar aðstæður á svæðinu. 

Einnig er gert ráð fyrir að fljúga um svæðið til að rannsaka hvort ferðamenn séu ennþá innan svæðisins en í gær ákváðu lögreglustjórarnir á Húsavík og Seyðisfirði að loka og rýma hálendið norðan Dyngjujökuls vegna jarðhræringanna í kring um Bárðarbungu undanfarna daga.

TF-SIF er búin ratsjám sem geta kortlagt yfirborð gosstöðvanna og jökulsins og gert vísindamönnum kleift að fylgjast með breytingum á yfirborði jökulsins og hraunflæði óháð skýjafari og birtu.  Búnaðurinn getur einnig kortlagt breytingar á mannvirkjum, svo sem vegum, brúm og rafmagnslínum sem hugsanlega geta orðið fyrir skemmdum vegna flóða.  Þá gerir vélin vísindamönnum unnt að fylgjast grannt með dreifingu og hæð öskustróks.  Flugvélin er einnig búin hitamyndavél sem gagnast við að meta ástandið á svæðinu og þróun mála.

Hér er kynningarefni á pdf um TF-SIF

Hér eru myndir sem voru teknar í flugskýli Landhelgisgæslunnar fyrir flugtak.


TF-SIF skömmu fyrir flugtak


Vísindamenn funda með stýrimönnum TF-SIF


Flugstjóri og flugmaður TF-SIF undirbúa flugið


Allir komnir um borð


Gert klárt fyrir flugtak