Námskeið í viðbrögðum við stórslysum á sjó

Fimmtudagur 22. september 2005.

Vaktstöð siglinga stendur fyrir námskeiði um þessar mundir fyrir starfsmenn sína um viðbrögð við stórslysum á sjó, neyðarfjarskipti, samhæfingu aðgerða viðbragðsaðila og fleira. Meðal annars hefur verið fenginn erlendur sérfræðingur sem sér um hluta kennslunnar.  Námskeiðið er haldið í Fjöltækniskólanum í Reykjavík.

Hluti námskeiðsins fjallar um viðbrögð vegna stórslysa á sjó t.d. björgun farþega og áhafna ferja og skemmtiferðaskipa.  Fleiri viðbragðsaðilum var boðið að taka þátt í þessum hluta námskeiðsins, þ.á.m. Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, Ríkislögreglustjóra og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins auk skipstjórnarmanna frá Landhelgisgæslunni og annarra starfsmanna frá Siglingastofnun og Neyðarlínunni.

Á námskeiðum sem halda áfram á næstu vikum munu varðstjórar í vaktstöð siglinga, þ.e. varðstjórar Landhelgisgæslunnar í stjórnstöð og fyrrum starfsmenn tilkynningarskyldunnar og loftskeytamiðstöðvarinnar í Gufunesi (nú starfsmenn Neyðarlínunnar), kynna fyrir hver öðrum þá starfsemi sem hver og einn ber ábyrgð á í vaktstöð siglinga þannig að stöðin verði betur undirbúin að gegna hlutverki sínu. 

Meðal efnis á námskeiðunum verður einnig fræðsla Siglingastofnunar um siglingavernd, kynning Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á sjódeild félagsins og björgunarskipum sem félagið hefur á sínum snærum.

Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga, Þórður Þórðarson fulltrúi hjá Siglingastofnun, Björn Júlíusson sviðsstjóri hjá Neyðarlínunni og Harald Holsvik varðstjóri í vaktstöð siglinga hafa haft veg og vanda af skipulagningu námskeiðsins.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.


Sigvaldi Torfason frá Slysavarnaskóla sjómanna, Einar K. Sigurgeirsson varðstjóri í stjórnstöð LHG/vaktstöð siglinga, og Sigurður Steinar Ketilsson skipherra á varðskipinu Tý. Á næsta borði fyrir aftan glittir í Þór Kristjánsson deildarstjóra frá Siglingastofnun og Árna Sigurbjörnsson varðstjóra í vaktstöð siglinga.


Baldur Bjartmarsson forstöðumaður frá Siglingastofnun, Leif K. Bryde varðstjóri í stjórnstöð LHG/vaktstöð siglinga, Auðunn F. Kristinsson yfirstýrimaður í flugdeild LHG, Ásgrímur L. Ásgrímsson yfirmaður vaktstöðvar siglinga, Jakob Jónsson varðstjóri í vaktstöð siglinga, Björgólfur Ingason varðstjóri í vaktstöð siglinga og Friðrik H. Friðriksson varðstjóri í stjórnstöð LHG/vaktstöð siglinga og kafari.  Á bak við þá eru Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri í stjórnstöð LHG/vaktstöð siglinga og Halldór B. Nellett skipherra á varðskipinu Ægi.


Guðmundur R. Jónsson stýrimaður á varðskipinu Tý, Thorben Lund yfirstýrimaður á varðskipinu Tý, Kristján Þ. Jónsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar og Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna.