Mikið að gera hjá TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar

Föstudagur 5. september 2014

TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar og áhöfn hennar hafa fylgst náið með þróun mála við Bárðarbungu, Dyngjujökul og Holuhraun frá því að vélin var kölluð heim úr erlendum verkefnum þann 19. ágúst síðastliðinn. Síðan hefur flugvélin farið fjölda fluga með vísindamenn þar sem safnað hefur verið ómetanlegum gögnum með ratsjár og eftirlitsbúnaði flugvélarinnar.

Flugvélin er nú í tveggja daga verkefni á Grænlandi í samvinnu við dönsk stjórnvöld og hefur undirbúningur þess verkefnis staðið yfir í um hálft ár og er áætlað að hún komi tilbaka í kvöld.

Þá tekur við nauðsynlegt viðhald  sem ekki var mögulegt að sinna meðan flugvélin var í erlendum verkefnum. Á meðan fer áhöfn flugvélarinnar í langþráð sumarleyfi eftir langa vinnutörn þar sem ekki var mögulegt að taka sumarleyfi á sumarleyfistíma vegna verkefna í Suður Evrópu fyrir Frontex,

Áætlað er að flugvélin verði í skoðun og viðhaldi fram eftir mánuðinum.