Flutningaskip strandaði við Vattarnes, milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar

Laugardagur 6. september 2014 kl. 07:50

Akrafell, flutningaskip Samskipa, strandaði á skeri við Vattarnes, á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar skömmu fyrir klukkan fimm í morgun. Mikill leki kom að skipinu við strandið. Skipið er 137 metra langt.

Allar björgunarsveitir á Austfjörðum voru kallaðar út auk varðskips og þyrlu Landhelgisgæslunnar.  Einnig var slökkvilið Reyðarfjarðar sem kallað var út vegna mengunarhættu.  Nálæg skip komu einnig til aðstoðfar. Umhverfisstofnun hefur virkjað neyðaráætlun vegna hættu á umhverfisspjöllum.

Mikill sjór komst í vélarrúm skipsins og er nú unnið að því að dæla úr skipinu. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug frá Reykjavík með dælur sem verið er að koma fyrir í skipinu. Áhöfn skipsins var flutt um borð í björgunarskip og eru nú tíu manns um borð í skipinu með dælur, bæði skipverjar og björgunarsveitarmenn. Gott veður er á staðnum.

Búið er að kalla til samráðsfund með Umhverfisstofnun, Samskipum og Landhelgisgæslunni til að fara yfir umhverfisáhrif strandsins.