Varðskipið Þór undirbýr brottför frá Reykjavík til aðstoðar við björgun flutningaskipsins Akrafells.

Laugardagur 6. september 2014 kl 15:00

Nú er nýlokið samráðsfundi Landhelgisgæslu, Umhverfisstofnunar, Samgöngustofu og Samskipa þar sem ákveðin voru næstu skref vegna strands flutningaskipsins Akrafells við Vattarnes. Unnið er að brottför varðskipsins Þórs frá Reykjavík og er áætlað að hann komi á strandstað um miðjan dag á morgun Þór tekur þá við vettvangsstjórn af varðskipinu Ægir sem og dráttartaug sem nú er yfir í fjölveiðiskipið Aðalsteinn Jónasson SU. Lóðsbáturinn Vöttur er á staðnum og bíður átekta. Um tuttugu manns eru við vinnu um borð í Akrafelli, sex úr áhöfn skipsins, fjórir frá Landhelgisgæslunni og ellefu manns frá björgunarsveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Skipið er laust að framan en það virðist sitja fast á klettanibbu. Sjór hækkar enn í vélarrúmi skipsins og virðast dælur ekki hafa undan. Engin mengun er sjáanleg. Kafarar vinna nú að því að meta stöðuna varðandi skemmdir á botni skipsins.

Við ákvörðun næstu skrefa er horft til þess að lágmarka áhættu með hliðsjón af umhverfisvá en fyrst og síðast að tryggja öryggi allra þeirra aðila sem koma að aðgerðinni.

Fylgst er náið með framvindu mála og staðan endurmetin eftir upplýsingum og aðstæðum hverju sinni.

Næsti samráðsfundur Landhelgisgæslunnar með Umhverfisstofnun, Samgöngustofu, Samskipum og Hafrannsóknastofnun verður haldinn kl. 17:30.