Köfurum tókst að loka fyrir streymi inn í vélarrúm Akrafells. Engin mengun greindist í flugi TF-SIF.

  • NC2009_WEEKEND_DIVE_DOUG_ELSEY_PHOTO__42

Laugardagur 6. september 2014 kl 16:45

Talið er að köfurum Landhelgisgæslunnar hafi tekist að loka fyrir streymi inn í vélarrúm flutningaskipsins Akrafells. Virðast dæling nú loks bera árangur. Kafararnir köfuðu inn í vélarrúmið mjög erfiðar aðstæður. Vinna nú kafarar að því að rannsaka botn skipsins utan frá.

Akrafell, flutningaskip Samskipa, strandaði á skeri við Vattarnes, á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar skömmu fyrir klukkan fimm í morgun. Mikill leki kom að skipinu við strandið. Báðar þyrlur Landhelgisgæslunnar voru sendar á vettvang með mannskap og búnað, varðskipið Ægir var staðsett við Norðausturland og hélt það á vettvang á auknum hraða og kom að strandstað um hádegi og tók við vettvangsstjórn. Flugvélin TF-SIF flaug yfir staðnum eftir hádegi og kannaði svæðið með mengunargreiningarbúnaði. Engin mengun var sjáanleg. Dráttartaug liggur frá skipinu í Aðalsteini Jónssyni SU. Varðskipið Þór hélt síðdegis frá Reykjavík og er áætlað að hann komi á staðinn um miðjan dag á morgun, tekur hann þá við dráttartaug og vettvangsstjórn. Björgunarsveitir og skip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, lóðsbáturinn Vöttur og fleiri skip og bátar hafa tekið þátt í björgunaraðgerðum.

Þriðji samráðsfundur Landhelgisgæslu með Umhverfisstofnun, Samgöngustofu, Hafrannsóknarstofnun og Samskipum er áætlaður kl 1730.

Við ákvörðun næstu skrefa er horft til þess að lágmarka áhættu með hliðsjón af umhverfisvá en fyrst og síðast að tryggja öryggi allra þeirra aðila sem koma að aðgerðinni.

Fylgst er náið með framvindu mála og staðan endurmetin eftir upplýsingum og aðstæðum hverju sinni.