Umfangsmikil leit að neyðarsendi - Fannst að lokum bak við verslun í Sandgerði

Miðvikudagur 21. september 2005.

Neyðarskeyti bárust um gervihnött rúmlega 11 í gærmorgun og var gefin upp staðsetning suðvestur af Reykjanesi.  Björgunarstjórnstöðin í Bodö í Noregi kom upplýsingum um neyðarsendingarnar til vaktstöðvar siglinga / stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar.  Í framhaldi af því fóru starfsmenn þar að grennslast fyrir um báta og skip á svæðinu og kanna hvort allt væri í lagi hjá þeim.  Einnig var haft samband  og samráð  við  Flugstjórn  eins og vant er þegar neyðarsendingar sem þessar fara í gang. 

Fleiri skeyti héldu áfram að berast yfir daginn en ómögulegt reyndist að finna upptök þeirra.  Flugmálastjórn óskaði eftir því við flugvélar sem flugu yfir svæðið að hlusta á þeirri tíðni sem neyðarsendingarnar bárust á og kanna hvort hægt væri að staðsetja neyðarsendinn betur.  Einnig var kallað til skipa og óskað eftir að þau fylgdust með sendingunum.  Björgunarbátur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Sandgerði, Hannes Þ. Hafstein, var kallaður út til að kanna málið og einnig varðskip Landhelgisgæslunnar.  

 

Um kl. 18:40 tilkynnti  Flugstjórn um sendingar norður af Keflavíkurflugvelli, að öllum líkindum í Sandgerði, sem flugvél hafði numið er hún flaug yfir svæðið.  Skömmu síðar tilkynnti flugstjórn að flugvél í aðflugi inn til Keflavíkurflugvallar hefði heyrt í neyðarsendi yfir Sandgerði.  

Í framhaldi af þessu var farið að leita út af Sandgerði og var einnig óskað eftir því við áhöfn Sifjar, þyrlu Landhelgisgæslunnar, að hún hlustaði eftir neyðarsendingum.  Sif var um það leyti á leið í þriðja útkallið í gær.

Varðskipsmenn tilkynntu um kl. 20 að þeir væru að skoða skip og báta út af Sandgerði og höfðu þeir meðal annars samband við eiganda eins skipsins, sem helst kom til greina, og óskuðu eftir því við hann að hann athugaði málið.  Rétt fyrir kl. 21 tilkynntu varðskipsmenn að ekki væri þörf á þyrlu þar sem verið væri að leita í bátum í Sandgerðishöfn og líklegast væri sá bátur fundinn sem neyðarsendingarnar bærust frá. Fljótlega kom í ljós að sendingarnar gátu vart komið frá sjó en sést hafði til unglinga að leik við björgunarbát í fjörunni í Sandgerði og var búið að fjarlægja neyðarsendinn úr honum þegar betur var að gáð.  Leitarflokkur frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg var kallaður út til að leita að sendinum í fjörunni.

Um kl. 21:30 tilkynnti björgunarsveitin í Sandgerði að neyðarsendirinn hefði fundist bak við verslun í bænum. Seinna kom í ljós að unglingar í bænum höfðu tekið neyðarsendinn úr bátnum og er málið nú í höndum lögreglu.

 

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.