Íslensku skipi vísað til hafnar fyrir meintar ólöglegar síldveiðar í lögsögu Grænlands

Miðvikudagur 17. september 2014

Landhelgisgæslan vísaði í nótt íslensku skipi til hafnar fyrir meintar ólöglegar síldveiðar í lögsögu Grænlands. Íslensk skip hafa ekki heimild íslenskra stjórnvalda til síldveiða innan grænlenskrar lögsögu og var Landhelgisgæslan því í samskiptum við yfirvöld á Grænlandi vegna málsins. Tvö skip eru grunuð um að hafa stundað ólöglegar síldveiðar á svæðinu en bæði skipin höfðu hinsvegar leyfi til makrílveiða á svæðinu. 

Þegar málið kom til rannsóknar var annað skipið á leið til hafnar á Íslandi. Áhöfn varðskipsins Þórs fór til eftirlits um borð í skipið í nótt og var skipstjóra í framhaldinu tilkynnt að hann hefði verið staðinn að meintum ólöglegum veiðum og var skipinu vísað til hafnar. Skipið kemur til Reykjavíkurhafnar nú síðdegis og er málið til meðferðar hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu. 

Í tilkynningu sem atvinnuvegaráðuneytið sendi frá sér í vikunni er áréttað er að íslensk skip hafa ekki leyfi til síldveiða í grænlenskri lögsögu. Þar segir ; »Ekkert íslenskt skip hefur leyfi Fiskistofu til veiða á síld í grænlenskri lögsögu, enda eru ekki skilyrði til slíkrar leyfisveitingar þar sem enginn samningur er milli Grænlands og Íslands um síldveiðar. Þessar reglur voru áréttaðar við íslenskar útgerðir í síðustu viku og grænlensk stjórnvöld hafa verið upplýst um stöðu þessara mála,« segir í frétt ráðuneytisins.