Aðgerðir vegna gossins kostnaðarsamar og utan rekstraráætlunar LHG

Mánudagur 6. október 2014

Frá því að jarðhræringar hófust í og við Vatnajökul hafa á milli 90 og 100 starfsmenn Landhelgisgæslunnar komið að aðgerðunum með einhverjum hætti. Hefur þeim fylgt umtalsverður aukakostnaður sem ekki var gert ráð fyrir í rekstraráætlun Landhelgisgæslunnar.

Flugdeild Landhelgisgæslunnar hefur öll tekið þátt með einhverjum hætti, þ.e. flugmenn, stýrimenn í flugvél og þyrlum, flugvirkjar og ýmsar stoðeiningar, stjórnstöð, starfsmenn aðgerðasviðs og starfsmenn í Keflavík sem vakta upplýsingar ratsjárstöðvanna. Einnig hafa starfsmenn Landhelgisgæslunnar verið til taks í samhæfingarstöð Almannavarna í Skógarhlíð.

Loftför Landhelgisgæslunnar hafa flogið 17 ferðir yfir gosstöðvarnar. Flugvélin TF-SIF hefur farið í 11 flug og flogið í 38 klukkustundir samtals. Þyrlurnar hafa farið í 6 flug og flogið samtals 22 klukkustundir. Þyrluflugin hafa öll verið notuð til að flytja vísindamenn, búnað og tæknimenn.

TF-SIF er búin ratsjám sem kortleggja yfirborð gosstöðvanna og jökulsins og gerir vísindamönnum kleift að fylgjast með breytingum á yfirborðinu og hraunflæði óháð skýjafari og birtu.  Búnaðurinn getur einnig kortlagt breytingar á mannvirkjum, svo sem vegum, brúm og rafmagnslínum sem hugsanlega geta orðið fyrir skemmdum vegna flóða.  Þá gerir vélin vísindamönnum unnt að fylgjast grannt með dreifingu og hæð öskustróks.  Flugvélin er einnig búin hitamyndavél sem gagnast við að meta ástandið á svæðinu og þróun mála.


TF-SYN hefur flogið með vísindamenn, tæknimenn og búnað vegna gossins og óróans í og við Vatnajökul.