Áhöfn TF-SIF heldur leit áfram - fjórir kafarar frá Landhelgisgæslunni bætast við leitarhópinn

Laugardagur  10. september 2005 kl. 13.
 
Eins og fram hefur komið í sameiginlegum fréttatilkynningum viðbragðsaðila í morgun er eins manns saknað eftir sjóslys á Viðeyjarsundi í nótt en ein kona hefur fundist látin. Þremur var bjargað.
 
Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl.2:30, með bráðaútkalli, og fór TF-SIF í loftið kl. 3:04.  Þyrlan var við leit í u.þ.b. 3 klst. og fór síðan aftur í loftið um kl. 9:40 í morgun.
 
Áhöfn TF-SIF er enn við leit og er flogið eftir leitarferlum sem fundnir eru út með sérstöku leitarforriti sem Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða.  Meðal annars hefur verið flogið yfir fjörurnar í Engey og Viðey og út undir sjöbauju. Fjórir kafarar frá Landhelgisgæslunni bætast við leitarhópinn um kl. 14.

Skemmtibáturinn sem um er að ræða var nýkeyptur til landsins og sigldi undir breskum fána.  Báturinn var 9.9 metra langur af gerðinni Skilsö, smíðaður í Noregi.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./upplýsingaftr.