Annáll Landhelgisgæslunnar 2014

Landhelgisgæsla Íslands óskar landsmönnum öllum og samstarfsaðilum gleðilegs nýs árs og þakkar ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða. Að baki er viðburðaríkt ár og má hér fyrir neðan sjá dæmi um fjölbreytt verkefni og viðburði ársins 2014.

Þyrlur LHG kallaðar út fjórum sinnum á einum sólarhring
Í byrjun janúar voru miklar annir voru hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sem sinnti fjórum útköllum á einum sólahring. Fjórir slasaðir eftir bílslys undir Eyjafjöllum, tveir sjúklingar voru sóttir á Patreksfjörð og var þyrlan kölluð út að nýju skömmu eftir lendingu í Reykjavík til að sækja alvarlega veikan mann um borð í togara 60 sml. frá Reykjanesi. Fjórða útkallið barst síðan eftir að umferðarslys varð í Borgarfirði. Mynd Baldur Sveinsson.


Skemmdir á fjarskiptabúnaði vegna ísingar. 
Töluverðar skemmdir urðu í byrjun ársins á fjarskiptabúnaði á Gunnólfsvíkurfjalli og Bolafjalli.  Landhelgisgæsla rekur ratsjár- og fjarskiptastöðvar NATO hér á landi sem m.a. eru staðsettar þar.   Á stöðvunum er einnig hýstur búnaður fyrir önnur fjarskiptafyrirtæki og þjónustuaðila hér á landi.  Ísingin var sú mesta á tuttugu ára tímabili.


Iceland Air Meet haldið á Íslandi
Flugsveit Norðmanna kom í janúar til landsins til að annast loftrýmisgæslu. Flugsveitin samanstóð af sex F16 þotum og fylgdu henni um 110 liðsmenn. Flugsveitir frá Finnlandi og Svíþjóð komu auk þess til landsins til æfinga með norsku flugsveitinni og þjálfaði Norðurlandasamstarfið samhliða loftrýmisgæslunni með Norðmönnum og Íslendingum. Verkefnið bar heitið Iceland Air Meet 2014.



Flutningaskip strandaði í höfninni á Þórshöfn
Flutningaskipið Green Maloy strandaði í höfninni á Þórshöfn. Um er að ræða 5.000 tonna flutningaskip, 109 metra langt en skipið var á leið úr höfn þegar það strandaði. Varðskipið Þór var samstundis kallað út og sigldi á vettvang.  Skipið losnaði síðan af sjálfsdáðum af strandstað.


Sprengjusérfræðingar eyddu tundurdufli sem barst í veiðarfæri
Landhelgisgæslunni barst tilkynning um að tundurdufl hefði borist í veiðarfæri Bergeyjar VE 544 úti fyrir Austfjörðum. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með sprengjusérfræðinga LHG og búnað um borð í varðskipið Þór sem flutti þá áfram um borð í Bergeyju. Ekki var talin þörf á að flytja áhöfn Bergeyjar frá skipinu og gerðu sprengjusérfræðingar tundurduflið óvirkt um borð og var það síðan flutt á öruggan stað til eyðingar.


Samningur undirritaður um verkefni Týs við Svalbarða
Landhelgisgæslan og Fáfnir Offshore hf undirrituðu í febrúar fimm mánaða samning um leigu á varðskipinu Tý, frá byrjun maí. Skipið var leigt til eftirlits- og björgunarstarfa sem og almennra löggæslu- og þjónustustarfa fyrir Sýslumanninn á Svalbarða með heimahöfn í Longerbyen.  Sýslumaðurinn á Svalbarða fer með yfirstjórn allrar stjórnsýslu sem lýtur að aðkomu norska ríkisins á Svalbarða, þar með talið löggæslumál til sjós og lands, leit og björgun og umhverfismál. Skipið var málað í litum Sýslumannsins á Svalbarða.

SIF
Sif tók þátt í björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi
Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF kom í mars að björgunaraðgerð 93 sjómílur suður af eyjunni Lampedusa á Miðjarðarhafi þar sem um 98 flóttamönnum var bjargað um borð í skip ítölsku strandgæslunnar. Um borð voru um 89 fullorðnir og 9 börn. TF-SIF hafði þá frá byrjun febrúar verið við landamæraeftirlit á Miðjarðarhafi fyrir Frontex Landamærastofnun Evrópusambandsins en Ísland er aðili að samstarfinu í gegnum Schengen. Mynd Árni Sæberg.

Landhelgisgæslan mældist með mest traust
Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup sem kom út í byrjun mars mælist Landhelgisgæslan með mest traust stofnana hér á landi eða 89 prósent.



Samherji gaf hjartastuðtæki fyrir þyrlur LHG
Útgerðarfyrirtækið Samherji á Akureyri afhenti þann 13. mars Landhelgisgæslunni að gjöf tvö hágæða hjartastuðtæki í tilefni af því að þann 9. mars voru tíu ár liðin frá því að þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF bjargaði sextán manna áhöfn fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar EA-10, sem strandaði í Skarðsfjöru á Suðurlandi, um þrjár sjómílur austur af Skarðsfjöruvita. Mynd frá strandi Baldvins Þorsteinssonar fengin frá Samherja.


TF-SYN kom til landsins í nýjum lit
Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SYN kom til landsins eftir umfangsmikla skoðun og viðhald í Noregi.  Settur var í þyrluna nætursjónaukabúnaður og var þyrlan einnig máluð í nýjum áberandi appelsínurauðum lit sem til stendur að allar þyrlur Landhelgisgælunnar beri í framtíðinni. Mynd Baldur Sveinsson.

BNA_Thota
Bandarísk flugsveit kom til loftrýmisgæslu 
Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hófst 12. maí með komu flugsveitar bandaríska flughersins. Alls tóku um 220 liðsmenn þátt í verkefninu, þar af um fimmtán manns á Akureyri þar sem voru staðsettar þotugildrur og flugviti. Flugsveitin kom til landsins með F-15 orrustuþotur, C-130 björgunarflugvélar, ásamt eldsneytisbirgðavél.

Leitar- og björgunaræfing þjóða Norðurskautsráðsins haldin hér á landi 
Leitar og björgunaræfingin Arctic Zephyr var haldin í byrjun maí á vegum yfirherstjórnar Bandaríkjanna USEUCOM og tóku þátt í henni þjóðir innan Norðurskautsráðsins. Æfingin fór fram á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Æfingin stóð yfir í tvo daga en um var að ræða skrifborðsæfingu þar sem íslenskar stofnanir, fyrirtæki og björgunaraðilar unnu að viðamiklu leitar- og björgunarverkefni ásamt samstarfsþjóðunum sem eru Bandaríkin,  Kanada, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð.

Erilsöm helgi
Mörg krefjandi verkefni komu helgina 24.-25. maí inn á borð Landhelgisgæslunnar og var á tímabili tvísýnt um mönnun á bakvakt þyrlu. Öll útköllin leystust þó farsællega, tveir sjómenn fluttir á sjúkrahús, bátar voru dregnir til hafnar og bátur kom í leitirnar sem hafði siglt út fyrir langdrægi ferilvöktunarkerfisins. Einnig tóku einingar Landhelgisgæslunnar þátt í samæfingum með Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu og bandarísku flugsveitinni sem var stödd á landinu.

Árlegur fundur Landhelgisgæslunnar um leit og björgun sjófarenda og loftfara 
Í byrjun júní var haldinn um borð í varðskipinu Þór árlegur fundur Landhelgisgæslunnar (LHG) með viðbragðsaðilum sem hlutverk hafa við leit og björgun sjófarenda og loftfara. Á fundinum var fjallað um helstu björgunaraðgerðir  og hvaða lærdóm mætti af þeim draga.

_MG_0659
Eldur kom upp í bát vestan við Straumnes 
Landhelgisgæslunni barst kl. 19:05 þann 6. júní beiðni um tafarlausa aðstoð vegna elds um borð í fiskibát með þrjá menn um borð sem var staðsettur rétt vestan við Straumnes. Tveir menn voru þegar komnir upp á brúarþak bátsins. Bátar á svæðinu voru beðnir um aðstoð auk þess sem kallað var út allt tiltækt björgunarlið Slysavarnarfélagsins Landsbjargar frá Ísafirði og Bolungarvík.   Þyrla Landhelgisgæslunnar var við eftirlit við suðurströndina og var hún beðin um að fljúga strax á staðinn. Þremur mínútum eftir útkallið eða kl. 19:08 var báturinn Hálfdán Einarsson kominn að bátnum og hafði tekið hann í tog tíu mínútum síðar. Mynd úr stjórnstöð LHG Árni Sæberg.


Bandarísk flugsveit hafði viðdvöl á Íslandi 
Flugsveit bandaríska sjóhersins hefur viðdvöl á Íslandi í júní vegna æfinga og eftirlitsverkefna í framhaldi af reglubundinni loftrýmisgæsluvakt bandaríska flughersins. Þrjár P-3 eftirlitsvélar ásamt áhöfnum og starfsliði, alls 100 manns, voru á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.


Varðskipið Ægir skipti út duflum
Áhöfn varðskipsins Ægis vann í júní að því að skipta út ljósduflum sem komin voru til ára sinna. Ljósduflin, ásamt tilheyrandi búnaði, voru sótt í höfnina í Kópavogi og þeim síðan komið fyrir í Hvalfirði, undan Akranesi og í Breiðafirði. Tveir starfsmenn frá siglingasviði Vegagerðarinnar tóku þátt í verkefninu.


Eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur fór til aðstoðar vélarvana bát 
Landhelgisgæslunni barst beiðni um aðstoð á rás 16 frá fiskibát sem fékk í skrúfuna og var vélarvana 18 sjómílur vestur af Akranesi. Ekki voru aðrir bátar að veiðum á svæðinu en Baldur, eftirlits- og sjómælingaskip Landhelgisgæslunnar var skammt norðaustur af bátnum og hélt hann samstundis á staðinn og dró bátinn til hafnar. Mynd GBA.

Leiftur6
Landhelgisgæslan við fiskveiðieftirlit með Fiskistofu
Eins og tíðkast hefur undanfarin ár sinntu Landhelgisgæslan og Fiskistofa sameiginlega fiskveiðieftirliti á grunnslóð. Fyrirkomulag eftirlitsins hefur komið vel út en það fer fram með harðbotna slöngubátnum Leiftri.  

Samningur undirritaður um verkefni í öryggis- og varnarmálum 
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra undirrituðu í lok júlí samning sem felur Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu Íslands að sinna framkvæmd verkefna á grundvelli varnarmálalaga nr. 34/2008.

Áhöfn varðskipsins Þórs aðstoðaði vísindamenn í Surtsey
Varðskipið Þór aðstoðaði í júlí vísindamenn við að komast til og frá Surtsey sem er friðuð en vöktuð af vísindamönnum frá þeim degi sem hún myndaðist í eldgosi árið 1963.  Varðskipsmenn lentu í eyjunni á zodic bátum og voru tólf manns flutt frá eyjunni til Vestmannaeyja ásamt 400 kg af búnaði. 


Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði við verkefni á Grænlandsjökli
Landhelgisgæslan hélt í sumar halda áfram sérverkefni sem fólst í aðstoð við að bjarga líkamsleifum áhafnar bandarískrar björgunarflugvélar sem fórst fyrir 70 árum á Grænlandsjökli. Til viðbótar við þyrlu Landhelgisgæslunnar voru notuð skip og grænlenskar þyrlur en að verkefninu standa bandaríkjaher, bandaríska strandgæslan og skyldar stofnanir. Mynd Árni Sæberg.

Þyrla LHG sótti sjúkling um borð í farþegaskip S - af Reykjanesi 
Landhelgisgæslunni barst í byrjun júlí beiðni um aðstoð þyrlu vegna alvarlegra veikinda frá farþegaskipinu Boudicca sem var staðsett um 20 sjómílur suður af Reykjanesi. Eftir samráð við þyrlulækni var þyrluáhöfn kölluð út og flutti sjúklinginn á sjúkrahús.


Varðskip og þyrla LHG sóttu ferðamenn á Hornstrandir 
Landhelgisgæslan fór í byrjun júlí til aðstoðar tveimur hópum ferðamanna sem voru staddir í Hornvík á Jökulfjörðum og Veiðileysufirði. Veður hafði verið afar slæmt og spáin næstu daga ekki góð. Því leit út fyrir að erfitt yrði að nálgast fólkið á næstunni með áætlunarferðum. 

SIF4_AS
Landhelgisgæslan kallaði eftirlitsflugvélina TF-SIF heim vegna aðstæðna í norðanverðum Vatnajökli 
Vegna aðstæðna í norðanverðum Vatnajökli ákvað Landhelgisgæslan þann 18. ágúst að kalla TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar heim frá útlöndum en hún var við landamæragæslu í sunnanverðu Miðjarðarhafi. TF-SIF er búin ratsjám sem geta kortlagt yfirborð gosstöðvanna og jökulsins og gert vísindamönnum kleift að fylgjast með breytingum á yfirborði jökulsins og hraunflæði óháð skýjafari og birtu.  Búnaðurinn getur einnig kortlagt breytingar á mannvirkjum, svo sem vegum, brúm og rafmagnslínum sem hugsanlega geta orðið fyrir skemmdum vegna flóða.  Þá gerir vélin vísindamönnum unnt að fylgjast grannt með dreifingu og hæð öskustróks.  Flugvélin er einnig búin hitamyndavél sem gagnast við að meta ástandið á svæðinu og þróun mála. Flugvél Landhelgisgæslunnar reyndist mjög vel í Eyjafjallagosinu árið 2010. Mynd AS.

Frá upphafi hafa þyrlur og flugvél LHG flogið reglulega yfir svæðið með almannavarnir, tækni- og vísindamenn en á meðal lögbundinna hlutverka Landhelgisgæslunnar er aðstoð við lögreglu og almannavarnir. Sjá myndskeið frá flugi þyrlu í haust. 

Sóttu slasaðan sjómann í lögsögu Grænlands
Landhelgisgæslunni barst aðstoðarbeiðni frá þýskum togara um að sækja slasaðan skipverja. Togarinn var þá staddur djúpt úti fyrir Vestfjörðum, um 140 sjómílur norður af Straumnesi, inni í lögsögu Grænlands. Vegna fjarlægðar var nauðsynlegt að kalla út bakvakt á þyrlu Landhelgisgæslunnar og fóru TF-LÍF og TF-SYN frá Reykjavík klukkan 01:49. Var maðurinn sóttur og hann fluttur á Landspítalann.


Áhöfn varðskipsins Ægis losaði hnúfubak úr netatrossu 
Skipstjórinn á Gammi SK 12 hafði samband Landhelgisgæsluna og óskaði eftir aðstoð við að losa hnúfubak sem hafði fest sig í netatrossu sem hann var að draga á Skagafirði. Hann hafði reynt að losa hann sjálfur en hafði við það tapað hakanum sínum þegar hvalurinn sló hann frá sér með sporðinum. Komu þá varðskipsmenn til aðstoðar og náðu að lokum að losa hnúfubakinn. Hér er myndskeið sem sýnir björgunaraðgerðir  .


Flutningaskipið Akrafell strandaði við Vattarnes
Akrafell, flutningaskip Samskipa, strandaði á skeri við Vattarnes, á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar skömmu fyrir klukkan fimm þann 6. september. Mikill leki kom að skipinu við strandið. Allar björgunarsveitir á Austfjörðum voru kallaðar út auk varðskips og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Einnig var slökkvilið Reyðarfjarðar sem kallað var út vegna mengunarhættu.  Umhverfisstofnun virkjaði neyðaráætlun vegna hættu á umhverfisspjöllum. Akrafell, losnaði um miðnætti af strandstað. Fimm menn auk skipstjóra voru borð í skipinu þegar það losnaði.  Ekki varð vart við mengun frá skipinu. Fjölveiðiskipið Aðalsteinn Jónsson SU tók skipið í tog og sigldi með það til hafnar í fylgd varðskipsins Ægis. 
Björgunaraðgerðir Landhelgisgæslunnar vegna strandsins voru afar umfangsmiklar og kom fjöldi manna úr nánast öllum deildum Landhelgisgæslunnar að málum.   Var samvinna og liðsheild starfsmanna einstök og sýndu viðbrögð þeirra að starfsmenn Landhelgisgæslunnar eru tilbúnir að gera það sem þarf til að bregðast við á ögurstundu í stóru sem smáu. Að verkefninu komu tvö varðskip, flugvél, tvær þyrlur, kafarar, stjórnstöð, sjómælingar og aðgerðastjórn svo eitthvað sé nefnt, auk björgunarsveita á Austfjörðum, nærliggjandi skipa, hafnarstarfsmanna og fjölda annarra.


Green Freezer strandaði í Fáskrúðsfirði
Landhelgisgæslunni barst um klukkan átta að kvöldi 17. september beiðni um aðstoð frá flutningaskipinu Green Freezer sem var þá strandað á skeri í Fáskrúðsfirði. Kallaðar voru út björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi, þ.m.t. björgunarskip og bátar allt frá Vopnafirði til Hornafjarðar. Fjölveiðiskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson hélt auk þess samstundis á strandstað. Varðskipið Þór var beðið um að halda á staðinn og var þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út. Kom hún á staðinn um miðnætti með fulltrúa Landhelgisgæslunnar og Umhverfisstofnunar. Útgerð fragtskipsins hófst handa við að vinna að björgunaráætlun skipsins og biðu á meðan björgunaraðilar átekta. Skipið var stöðugt á strandstað og er ekki talin hætta á ferð. Landhelgisgæslan tók að kvöldi 19. sept. ákvörðun um að beita íhlutunarrétti, í samræmi við lög um verndun hafs og strandar vegna flutningaskipsins. Ákvörðunin var tekin að höfðu samráði við Umhverfisstofnun. Varðskipið Þór hóf í birtingu björgunaraðgerðir sem miðuðu að því að losa flutningaskipið af strandstað og losnaði skipið klukkan 10:52 þann 20. sept.  Um nóttina var dælt yfir eitt hundrað tonnum af olíu úr skipinu með aðstoð Olíudreifingar. Hér er myndskeið frá áhöfn varðskipsins sem sýnir skipið dregið á flot. Mynd SA.


Æfing sprengjusérfræðinga fór fram 
Æfingin Northern Challenge hófst í lok september en um er að ræða alþjóðlega æfingu  fyrir sprengjusérfræðinga. Séraðgerða og sprengjueyðingasvið Landhelgisgæslunnar annast  skipulagningu og stjórnun æfingarinnar sem fer fram á svæði Landhelgisgæslunnar við Keflavík og í Hvalfirði.

Flugtæknideild LHG tók við viðhaldsrekstri TF-FMS
Flugtæknideild Landhelgisgæslunnar tók þann 1. Október við rekstri TF-FMS, flugvélar Isavia sem er af gerðinni Beech B200 King Air. Vélin hafði áður verið í rekstri Mýflugs en fluttist yfir á flugrekstrarleyfi Isavia þar sem hún er notuð við flugprófanir. Isavia gerði samning við flugtæknideild LHG um allan viðhaldsrekstur vélarinnar.

Tékknesk flugsveit kom til loftrýmisgæslu
Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hófst að nýju fimmtudaginn 9. október með komu flugsveitar tékkneska flughersins. Alls tóku um 80 liðsmenn þátt í verkefninu og til viðbótar starfsmenn frá stjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center).  Flugsveitin kom til landsins með fimm JAS-39C Gripen orrustuþotur. Verkefninu lauk í byrjun desember.


Aðmíráll danska flotans kynnir sér starfsemi Landhelgisgæslunnar 
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar tók í október á móti Frank Trojan aðmírál danska flotans, ásamt samstarfsmönnum í höfuðstöðvum Landhelgisgæslunnar. Kynnt var starfsemi Landhelgisgæslunnar og samstarf við Joint Arctic Command í Nuuk á Grænlandi sem eru höfuðstöðvar Dana fyrir björgunar- öryggis- og varnarmál á Norðurslóðum.


TF-GNA líka orðin appelsínugul 
Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNA lenti í Reykjavík þann 16. október eftir langa fjarveru en þyrlan var staðsett í Noregi þar sem hún fór m.a. í umfangsmikla skoðun og var síðan málið í nýjum lit þyrlna Landhelgisgæslunnar. Eru nú tvær þyrlur sem bera þann lit, TF-GNA og TF-SYN.Týr lagði úr höfn áleiðis í Miðjarðarhaf Varðskipið Týr lagði úr Reykjavíkurhöfn þann 20. nóvember áleiðis í Miðjarðarhaf suður af Ítalíu þar sem skipið mun næstu mánuði sinna landamæragæslu fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. 

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eyddu tundurdufli sem kom í veiðarfæri.
Landhelgisgæslunni barst tilkynning um torkennilegan hlut sem kom upp með veiðarfærum um borð í Jón á Hofi sem var á veiðum í Jökuldýpi vestur af landinu. Sjá myndskeið.

Vopnum frá Norðmönnum verður skilað 
Talsverð umræða átti sér stað um vopn sem bárust hingað til lands frá Norðmönnum og ekki hafa verið tekin í gagnið. Eftir viðræður Landhelgisgæslunnar við norska herinn lá fyrir ákvörðun um að vopnunum verði skilað. 

Tafir á siglingum vegna veðurfars
Í lok nóvember og fram í desember blésu stormar á Norður-Atlantshafi og hver djúp lægðin á fætur annarri fóru hjá eða yfir Ísland.  Sjófarendur fóru ekki farið varhluta af þessu, talsverður fjöldi skipa hélt í höfn eða fóru í var meðan óveðrið gekk yfir landið. Einnig sóttist seint sigling skipa til og frá Íslandi.  Skip sem sigla á milli Íslands og Norður-Evrópu sem að öllu jöfnu tekur þrjá til fimm daga lengdist í fimm til átta daga.


Varðskipið Týr tók þátt í björgun 300 flóttamanna austur af Sikiley 
Varðskipið Týr tók þann 6. desember þátt í björgun 300 flóttamanna af stjórnlausu flutningaskipi um 165 sjómílur austur af Sikiley. Eftirlitsflugvél frá ítölsku strandgæslunni flaug fram á skipið og fengust þá upplýsingar um fjölda flóttamannanna um borð og í hópnum væru bæði konur og börn. Enginn matur né vatn var um borð í skipinu og var talið mikilvægt að flytja fólki sem fyrst frá borði. Fólkið var flutt yfir í hollenskt flutningaskip sem var fyrst á vettvang og sigldi það með flóttafólkið til Catania á Sikiley í fylgd varðskipsins Týs. Sex varðskipsmenn af Tý voru um borð í flutningaskipinu til að hlúa að flóttafólkinu þar til komið var til hafnar.


Önnur björgun varðskipisins Týs á innan við viku 
Áhöfn varðskipsins Týs var að nýju kallað til aðstoðar þann 10. desember og bjargaði í kjölfarið 408 flóttamönnum af flutningaskipi sem var staðsett 165 sjómílur austur af Möltu. Neyðarboð bárust frá skipinu og var með aðstoð eftirlitsflugvéla mögulegt að staðsetja skipið. Var þá óskað var eftir aðstoð Týs. Var þetta önnur björgunaraðgerð varðskipsins á innan við viku sem áhöfn varðskipsins bjargar stórum hópi flóttafólks á Miðjarðarhafi.


Undirbúningsfundur fyrir ráðstefnu um öryggis- og björgunarmál á Norðurslóðum 
Í desember stóðu Landhelgisgæsla Íslands og Utanríkisráðuneytið fyrir undirbúningsfundi ráðstefnu Arctic Security Forces Roundtable sem haldin verður á Íslandi í maí 2015.  Arctic Security Forces Roundtable er samstarfverkefni þjóða Norðurheimskautsráðsins - Arctic Council, sem eru auk Íslands, Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Kanada, Noregur og Svíþjóð. Einnig tekur Frakkland, Þýskaland, Holland og Bretland þátt í samstarfinu.


Varðskipið Týr eina íslenska skipið á sjó yfir hátíðarnar
Engin íslensk fiskiskip voru á sjó yfir jólin en nokkur erlend leigu- og fragtskip voru á siglingu innan íslenska hafsvæðisins. Eina íslenska skipið á sjó yfir hátíðarnar var varðskipið Týr sem var við eftirlit á Miðjarðarhafi vegna verkefna fyrir Landamærastofnun Evrópusambandsins, Frontex.