Varðskipið Týr 40 ára í dag

Saga varðskipsins Týs í 40 ár - upphaf og helstu atburðir

Varðskipið Týr er 40 ára í dag. Þetta sögulega varðskip ber aldurinn vel þrátt fyrir að hafa marga hildina háð í gegnum áratugina. Í tilefni dagsins var að sjálfsögðu slegið upp veislu um borð en sem stendur er varðskipið við björgunar- og eftirlitsstörf í Miðjarðarhafi fyrir Landamærastofnun Evrópusambandsins, Frontex.

 
Bakaðar voru kökur um borð í tilefni dagsins


Hér má lesa ýmislegt fróðlegt um upphaf og helstu atburði varðskipsins Týs en þetta yfirlit tók Halldór B. Nellett skipherra hjá Landhelgisgæslunni saman.

 
Málin rædd, mynd tekin 1975. Mynd: Jón Páll Ásgeirsson
Upphafið

Samið var um smíði varðskipsins Týs í desember 1973.  Pétur Sigurðsson þáverandi forstjóri Landhelgisgæslunnar skrifaði undir samninginn fyrir hönd Landhelgissjóðs/Ríkissjóðs.

Kjölur af skipinu var lagður í júlí 1974.

Skipinu var svo hleypt af stokkunum 10. október 1974 og var þá gefið nafn. Það var Dóra Guðbjartsdóttir eiginkona Ólafs Jóhannessonar þáverandi dómsmálaráðherra sem gaf skipinu nafnið “TÝR”.

Skipið fór í reynslusiglingu 8. mars 1975 (undir dönskum fána). Varðskipið Týr var formlega afhent Landhelgisgæslu Íslands 14. mars 1975. Pétur Sigurðsson þáverandi forstjóri Landhelgisgæslunnar tók á móti skipinu fyrir hönd Landhelgisgæslu Íslands og var þá íslenski fáninn dreginn að hún.

Skipið kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur 24. mars 1975, kl. 16:37 og lagðist að Ingólfsgarði.

Fór varðskipið sína fyrstu ferð til björgunar- og landhelgisgæslustarfa frá Reykjavík þann 29. mars 1975, undir stjórn Guðmundar Kjærnested skipherra.

 
Gamlar varðskipskempur, mynd tekin 21. apríl 1975. Mynd: Jón Páll Ásgeirsson

Týr 21. apríl 1975. Mynd: Jón Páll Ásgeirsson
Þorskastríðið 1975-1976

Varðskipið Týr kom mikið við sögu í 200 sjómílna þorskastríðinu og klippti á togvíra fjölda togara, bæði breskra og þýskra.  Alvarlegasti atburðurinn varð þegar breska freigátan Falmouth sigldi tvívegis á Tý og laskaði hann verulega.  Skipið fór nær alveg á hliðina en rétti sig við aftur. Ekkert manntjón varð en litlu mátti muna að tveir skipverjar Týs færu fyrir borð við þessa fólskulegu árás freigátunnar.

 
Dettifoss í drætti. Mynd: Jón Páll Ásgeirsson
Súðavík

Í janúar 1995 féll eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar í Súðavík. Varðskipið Týr fór til Súðavíkur frá Reykjavík með fjölda björgunarsveitarmanna, lækna, slökkviliðsmanna, leitarhunda ofl. Skipið hreppti hið versta veður á leiðinni.  Einnig fór Týr í sömu ferð til aðstoðar flutningaskipinu Múlafossi sem var í vélavandræðum í aftakaveðri norður af Hornbjargi og fylgdi honum til hafnar.

 

Skutull

Dagana 1.- 4. nóvember 1991 vann varðskipið við björgun skuttogarans SKUTULS en þess má geta að skuttogarinn er fyrrverandi varðskip Landhelgisgæslunnar og hét þá Baldur. Kom hann mikið við sögu í 200 mílna þorskastríðinu 1975-76.

Veður var afleitt meðan á aðgerðum stóð, NA-stórviðri en skipið fékk veiðarfærin í skrúfuna á Halamiðum undan Vestfjörðum.  Togarinn Júlíus Geirmundsson reyndi fyrst að draga skipið en dráttartaugin margslitnaði og var þá Týr kallaður til.

Týr kom dráttartaug á milli skipanna en það fór á sömu leið, hún slitnaði enda þá komið ofsaveður og stórsjór og lágu skipin undir áföllum. SKUTULL fékk á sig mikinn brotsjó sem lagði skipið á hliðina um 70-80°. Þegar SKUTULL rétti sig við aftur eftir áfallið kom í ljós að veiðarfærin höfðu losnað að hluta úr skrúfunni og skipið varð ferðafært.  Gat það siglt hæga ferð og sigldu bæði skipin inn á Dýrafjörð þar sem kafarar varðskipsins hreinsuðu það sem eftir var úr skrúfu skipsins.  

 

 
Vöfflukaffi um borð í Tý er hann varð 30 ára. Mynd: Jón Kr. Friðgeirsson

Vaðlavík

Í janúar 1994 dró varðskipið Týr togbátinn Bergvíká flot í Vaðlavík en skipið hafði strandað þar í desember árið áður. Við þær aðgerðir fórst dráttarbáturinn Goðinn við björgunaraðgerðir en áður hafði Týr reynt að draga Bergvíkina við slæmar veðuraðstæður á flot án árangurs. Þyrlur varnarliðsins unnu mikið björgunarafrek þegar þeim tókst að bjarga áhöfn Goðans en einn áhafnarmeðlimur lét lífið.

 

 
Týr að koma með Hebron Sea til Danmerkur eftir mánaðarsiglingu frá Kanada. Mynd: Jón Páll Ásgeirsson
Henrik B

Dagana 29. desember 1994 til 1. janúar 1995 bjargaði varðskipið Týr hollenska flutningaskipinu Henrik B.

Það sem er merkilegt við þessa björgun er að flutningaskipið sigldi mannlaust í margar klukkustundir undan suðurströnd landsins eftir að þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-SIF tókst að bjarga allri áhöfninni eftir að skipið fékk á sig mikinn brotsjó.  Meðal þeirra sem bjargað var af skipinu var smábarn sem var um borð.  Eftir að skipið fékk á sig brotsjóinn taldi áhöfnin að skipið væri að sökkva. Skipverjum Týs tókst með harðfylgi að komast um borð um 100 sjómílur suðsuðaustur af Vestmannaeyjum og sigla skipinu til Reykjavíkur.

 

 

EFCA fiskveiðieftirlit

Varðskipið Týr var við fiskveiðieftirlit á Miðjarðarhafi, Síldarsmugunni og á Nýfundnalandsmiðum fyrir Fiskveiðieftirlitsstofnun Evrópusambandsins árin 2011 og 2012.

 

Svalbarði

Sumarið 2014 var Týr leigður til Sýslumannsins á Svalbarða í almenn björgunar-og eftirlitsstörf á svæðinu.

 

 
Áhöfnin á Tý í jólaskapi í Miðjarðarhafi, jólin 2014. Mynd: Áhöfnin á Tý

Frontex

Árið 2013 fór varðskipið Týr í landamæraeftirlit milli Spánar og Marokkó á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópusambandsins.  Núna undanfarið eða síðan 1. desember  2014 hefur varðskipið verið við eftirlit og björgunarstörf á vegum Frontex á svæðinu suður og austur af Ítalíu.  Í störfum sínum fyrir Frontex hafa áhafnir varðskipsins tekið þátt í björgun þúsunda flóttamanna, oft við skelfilegar aðstæður í vondum veðrum og hafa þessi afrek vakið heimsathygli. Skipið fór frá Íslandi 20. nóvember 2014 og er væntanlegt heim aftur 1. júní nk.

 

 
Áhöfnin á Tý í Miðjarðarhafi í mars 2015
 
Týr kemur með Ezadeen til hafnar


Tölfræði yfir ýmsar bjarganir

Á síðastliðnum 40 árum hefur Týr dregið alls 99 skip til hafnar eða í landvar á Íslandi og tvö erlendis eða alls 101 skip. Síðasta björgun Týs var þegar flutningaskipið EZADEEN var dregið til hafnar á Ítalíu í byrjun janúar s.l. með alls 360 flóttamenn en skipið var stjórnlaust djúpt austur af Ítalíu. Lengsta dráttarverkefni Týs til þessa var í maí-júní 2012 þegar dráttarbáturinn Hebron Sea var dreginn frá Pictou á Nova Scotia í Kanada til Grena í Danmörku eða alls 2881 sjómílur. 

Í alls 105 skipti hafa veiðarfæri verið skorin úr skrúfum fiskiskipa af köfurum varðskipsins og 6 sinnum verið kafað við skip þar sem botnskemmdir og fleira hafa verið kannaðar eftir strönd skipa.

Alls hafa 8 skip verið dregin úr strandi.

Unnið hefur verið að slökkvistörfum í alls 3 skipum og sjó dælt úr lekum skipum alls 4 sinnum af ýmsum ástæðum.

Varðskipið Týr hefur sinnt fjölda annarra atvika s.s. leit að skipum og mönnum, sjúkraflutningum, slæðingu á veiðarfærum, aðstoð við eyðingu tundurdufla, aðstoð við bilanir á vélbúnaði og svo mætti lengi telja.  Þá hefur margvíslegri vinnu verið sinnt fyrir innlenda samstarfsaðila svo sem á ljósduflum og öldumælisduflum og viðhaldi ljósvita á annesjum og skerjum umhverfis landið.

Þrátt fyrir árin 40 er varðskipið Týr enn í góðu standi.  Skipið hefur ávallt fengið gott viðhald og hefur í þrígang farið til Póllands á árunum 1996-2006 þar sem gerðar voru ýmsar endurbætur á skipinu.

Þrátt fyrir að Týr hafi upphaflega verið smíðaður til eftirlits- og björgunarstarfa á Íslandsmiðum hefur skipið farið víða eða allt frá botni Miðjarðarhafs til Norfolk í Virginíu í Bandaríkjunum og norður fyrir Svalbarða í Norðurhöfum.

Tekið saman af Halldóri B. Nellett skipherra um borð í Tý á Miðjarðarhafi, dagana 16.-19. mars 2015.