Áhöfnin á varðskipinu Tý bjargar 342 flóttamönnum af lekum trébát norðvestur af Trípólí

Varðskipið Týr bjargaði nú rétt í þessu 342 flóttamönnum af litlum trébát um 50 sjómílur norðvestur af Trípólí en mikill leki var kominn að bátnum. Fjöldi kvenna og barna er í þessum hópi eða alls 135 konur og 27 börn. Nokkrar kvennanna eru barnshafandi. Veður á vettvangi er þokkalegt og gengu björgunaraðgerðir vel fyrir sig.

Er áhöfn Týs hafði lokið við að koma öllum flóttamönnunum um borð í Tý hélt varðskipið rakleiðis að öðrum bát með um 200 flóttamenn um borð og er áhöfn Týs nú að aðstoða við að koma þeim flóttamönnum um borð í annað skip sem er á staðnum. Þegar því máli er lokið mun Týr halda með flóttamennina 342 til hafnar á Ítalíu.

Gríðarlegur straumur flóttafólks er nú á þessu svæði og hefur á þriðja þúsund manns verið bjargað þar á síðustu dögum.

Meðfylgjandi er mynd frá björgunaraðgerðum Týs nú rétt áðan er þeim 342 flóttamönnum sem voru um borð í trébátnum var bjargað um borð í varðskipið.