Fundur norræna sjómælingaráðsins haldinn í Reykjavík

Tveggja daga fundi norræna sjómælingaráðsins (Nordic Hydrographic Commisson, NHC), sem í þetta sinn var haldinn í Reykjavík, lauk nú í vikunni. Landhelgisgæslan er ábyrg fyrir sjómælingum og sjókortagerð á hafsvæðinu kringum Ísland og er hluti af norræna sjómælingaráðinu. Ráðið fundar árlega til skiptis á Íslandi, í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Síðast var fundur hér á landi í apríl 2010.

Öll eru ríkin aðilar að alþjóða sjómælingasamtökunum sem hafa aðsetur í Mónakó (International Hydrographic Organizaton, IHO) og sat fulltrúi skrifstofu samtakanna fundinn. Alls eru 82 lönd aðilar að samtökunum sem stofnuð voru árið 1921. 

Fjölmargar nefndir, ráð og vinnuhópar starfa undir hatti alþjóða sjómælingasamtakanna. Norræna sjómælingaráðið er þar t.d. meðal 15 svæðaráða sem hvert um sig hefur með tiltekinn hluta heimshafanna að gera.

Á fundinum hér í Reykjavík voru á dagskrá mál sem efst eru á baugi og varða í víðum skilningi, sjómælingar og sjókortaútgáfu landanna fimm auk þess sem rædd voru málefni sem varða samstarf í málaflokknum á alþjóðavettvangi.