Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar æfir með áhöfn danska varðskipsins TRITON

Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar hélt sprengjuæfingu með áhöfn danska varðskipinu HMS TRITON í vikunni að beiðni stjórnenda skipsins en skipið var þá statt í Reykjavík. Nauðsynlegt er fyrir báða aðila að halda slíkar æfingar með reglubundnum hætti en náið og gott samstarf er milli danska sjóhersins og Landhelgisgæslunnar á mörgum sviðum.

Æfingin fólst í því að borist hafði tilkynning um að hugsanlega væri sprengja um borð í TRITON. Sprengjusérfræðingur frá Landhelgisgæslunni hafði falið sprengjuna um borð og fór áhöfn varðskipsins í að leita skipið. Eftir ítarlega leit áhafnar fannst grunsamlegur hlutur og var þá sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar kölluð út.

Til að gera sprengjuna óskaðlega notuðu sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar þráðlaust vélmenni sem sprengjueyðingarsveitin tók í notkun á síðasta ári. Vélmennið nýtist afar vel til að mynda við þröngar aðstæður um borð í skipum og flugvélum og við margvísleg önnur sprengjueyðingar- og almannavarnaverkefni.

 
Vélmennið tilbúið til notkunar
 
 Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar að störfum um borð í TRITON