Fimmtíu ár frá því þyrluflug hófst hjá Landhelgisgæslunni

Í dag, 30. apríl eru 50 ár síðan Landhelgisgæslan tók þyrlu til notkunar við björgunar,- löggæslu- og eftirlitsstörf.  Starfsmenn Landhelgisgæslunnar fögnuðu þessum tímamótum í dag í flugskýli Landhelgisgæslunnar en þar var slegið upp grillveislu í tilefni dagsins og gestir gæddu sér á afmælistertu.

Frá upphafi er talið að þyrlur Landhelgisgæslunnar hafi bjargað um 3.000 manns, þar af um 2.000 frá árinu 1994. 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar í þróun þyrlubjörgunarmála á Íslandi frá því að fyrsta björgunarþyrlan, sem var af gerðinni Bell 47J var keypt árið 1965. Í dag rekur Landhelgisgæslan þrjár björgunarþyrlur af gerðinni Super Puma, tvær þeirra eru leigðar en ein þeirra, TF-LIF er í eigu Landhelgisgæslunnar. Nú liggja fyrir tillögur að endurnýjun þyrlubjörgunarflota Landhelgisgæslunnar á næstu sex árum en brýnt er að huga að endurnýjun hans þar sem núverandi þyrlur eru komnar til ára sinna auk þess sem leiga til langs tíma er óhagkvæmur kostur.

Ítarleg og fróðleg úttekt er gerð á starfsemi þyrlubjörgunar hjá Landhelgisgæslunni í Morgunblaðinu í dag. Meðfylgjandi myndir tók hins vegar Árni Sæberg í dag er starfsmenn Landhelgisgæslunnar fögnuðu þessum merku tímamótum.

 
Tveir þrautreyndir kappar sem meðal annars eiga að baki farsælan starfsferil í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, þeir Kristján Þ. Jónsson fyrrum skipherra og Sigurður Steinar Ketilsson skipherra.
 
Afmælisterta dagsins.
 

Á góðri stundu.  Frá vinstri: Sigurður Ásgrímsson yfirmaður sprengjusveitar, Magnús Guðjónsson háseti, Sindri Steingrímsson flugrekstrarstjóri og Jóhann Örn Sigurjónsson háseti.

 
 Glæsilegt veisluborðið svignaði undan kræsingunum.
 
Glatt á hjalla.  Frá vinstri: Thorben J. Lund yfirstýrimaður flugdeildar, Sindri Steingrímsson flugrekstrarstjóri og Sandra Margrét Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs.

 
Málin rædd.  Frá vinstri: Jóhann Eyfeld stýrimaður og sigmaður í þyrlusveit, Martin Sövang sprengjusérfræðingur, Jón Árni Árnason varðstjóri í stjórnstöð og Jónas Karl Þorvaldsson sprengjusérfræðingur.