Varðskipið Týr í slipp - ber aldurinn vel þrátt fyrir atgang í gegnum árin

Varðskipið Týr er nú í slipp hjá Stálsmiðjunni og er áætlað að verkið taki um þrjár vikur. Um er að ræða slipptöku sem fyrirhuguð var á þessum tíma til að gera margvíslegar endurbætur á skipinu en um leið verður gert við þær skemmdir sem urðu á Tý er siglt var á varðskipið í Reykjavíkurhöfn fyrir skemmstu.

Það er óhætt að segja að varðskipið Týr beri aldurinn vel þrátt fyrir erfið verkefni og atgang í gegnum árin. Varðskipið er nú orðið 40 ára gamalt en því hefur verið afar vel viðhaldið í gegnum tíðina. Meðal annars var ráðist í endurbyggingu skipsins fyrir rúmum 10 árum þar sem brú þess var endurnýjuð að stórum hluta og fleiri vistarverur endurbættar.

Á meðfylgjandi myndum má sjá er Týr var dreginn upp í slippinn.