Tvö sjúkraflug TF-LIF í gærkvöldi

Fimmtudagur 18. ágúst 2005.

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, sinnti tveimur útköllum í gærkvöldi.  Um kl. 19:45 fengu varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýsingar um að líklega yrði óskað eftir þyrlu að rannsóknarbúðum við Kringilsárrana norðan við Brúarjökul í Vatnajökli en þar var maður með hjartverk.  Átta mínútum síðar var tilkynnt að læknir á Egilsstöðum óskaði eftir þyrlu til að sækja  hjartveika manninn.  Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 20:26.

Þyrlan lenti við vinnubúðirnar á Kringilsárrana kl. 21:46 og fór aftur í loftið fjórum mínútum síðar með sjúklinginn innanborðs.  TF-LIF lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 23:14 og þar beið sjúkrabíll sem flutti sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut. 

Rétt áður en þyrlan lenti fékk áhöfnin boð frá stjórnstöð um að halda strax af stað út á Snæfellsnes en þar hafði 3 ára stúlkubarn slasast við að falla að því er talið var u.þ.b. 5 metra niður á steinsteyptan pall í hlöðu. 

Þegar TF-LIF lenti á Reykjavíkurflugvelli var þegar hafist handa við að setja eldsneyti á vélina og fór hún aftur í loftið kl. 23:22.  Þá var sjúkrabíll lagður af stað með stúlkuna í átt til Reykjavíkur og var ákveðið að hann kæmi til móts við þyrluna á Vegamótum á Snæfellsnesi.  Þyrlan lenti með stúlkuna um kl. 00:18 við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./upplýsingaftr.