Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, aðstoðar við leit að þýskum ferðamanni

Þriðjudagur 16. ágúst 2005.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti í dag leitarhunda og björgunarsveitarmenn til Hælavíkur á Hornströndum til að leita að þýskum ferðamanni sem hafði orðið viðskila við félaga sína. Maðurinn fannst um þrjúleytið í dag og amaði ekkert að honum.

Samkvæmt upplýsingum sem stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og vaktstöð siglinga bárust í morgun hafði maðurinn orðið viðskila við ferðahóp sinn kl. 19 í gærkvöldi.  Félagar hans leituðu að honum í nótt án árangurs og sendu síðan út neyðarkall frá björgunarskýli í Hornvík um kl. 9 í morgun.  Áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var þegar kölluð út en þyrlan fór ekki af stað fyrr en kl. 11:15 þar sem beðið var eftir björgunarsveitarmönnum með leitarhunda sem lögreglan á Ísafirði óskaði eftir.

Þyrlan lenti á Ísafirði kl. 12:50 og fór þaðan kl. 13:15 með 9 björgunarsveitarmenn og fjóra leitarhunda.  Þyrlan flutti þá til Hælavíkur og hélt síðan aftur til Ísafjarðar til að sækja fleiri leitarmenn.  Síðan kom tilkynning frá leitarmönnum um þrjúleytið um að maðurinn væri fundinn og kominn um borð í bát í Hornvík. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór þá aftur til Hornvíkur að sækja björgunarsveitarmennina og er búist við henni til Reykjavíkur milli kl. 17 og 19.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./upplýsingaftr.