Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargar ferðamanni úr sjálfheldu á Eyjafjallajökli

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 14:12 í dag beiðni um þyrlu vegna erlends ferðamanns sem var kominn í sjálfheldu á Eyjafjallajökli, vestan megin við Gígjökul ofan í Smjörgili. Þyrla Landhelgisgæslunnar var komin í loftið aðeins níu mínútum síðar og á áfangastað rúmum 30 mínútum síðar.

Maðurinn hafði verið í sambandi við björgunarsveitir á staðnum og staðsetning hans var kunn. Gekk því greiðlega að finna manninn og seig sigmaður þyrlunnar niður til hans. Var hann kominn um borð í þyrluna heilu og höldnu tæpum 50 mínútum frá því útkallið barst Landhelgisgæslunni. Flaug þyrlan með manninn á Hvolsvöll.