Landhelgisgæslan vinnur með Clint Eastwood

Mánudagur 15. ágúst 2005.

Landhelgisgæslan tók að sér að aðstoða kvikmyndafyrirtækið Warner Bros og íslenska fyrirtækið True North með ýmsum hætti vegna töku á kvikmyndinni Flags of our Fathers.  Fyrirtækin leituðu til Landhelgisgæslunnar fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum og föluðust eftir því að hafa varðskip úti fyrir Stóru Sandvík á Reykjanesi á meðan á tökunum stæði.  Óskað var eftir tveimur varðskipum.  Landhelgisgæslan taldi víst að hægt yrði að leggja til eitt varðskip en bauðst til að gera það sem hægt yrði með góðu móti.

Gerður var samningur um leigu á gamla varðskipinu Óðni sem nú er aðeins notað þegar varðskipin Ægir og Týr eru í viðgerð eða endurbótum. Einnig var samþykkt að annað varðskip kæmi að verkefninu ef önnur og brýnni verkefni Landhelgisgæslunnar kæmu ekki í veg fyrir það og þess vegna var Týr í Stóru Sandvík ásamt Óðni sl. föstudag. Fyrirvari var gerður við þáttöku Landhelgisgæslunnar þannig að varðskipin gætu siglt í burtu ef þörf krefði vegna lögregluaðgerða eða björgunarstarfa.  

Landhelgisgæslan aðstoðaði kvikmyndafyrirtækin einnig með flutninga og geymslu á sprengiefnum og vopnum sem notuð eru í myndinni og a.m.k. einn yfirmaður hjá Landhelgisgæslunni var á launaskrá hjá Warner Bros sem tengiliður vegna varðskipanna á svæðinu.

Fyrir varðskipin fékk Landhelgisgæslan u.þ.b. eina milljón króna fyrir daginn en þau lágu að mestu við akkeri á meðan á tökum stóð og voru notuð sem nokkurs konar leikmynd.  Varðskipin voru í Stóru Sandvík einnig af öryggisástæðum og voru áhafnir þeirra reiðubúnar að grípa inn í ef hættuástand skapaðist.

Í upphafi var gert ráð fyrir að varðskipin yrðu í Stóru Sandvík fram til 17. ágúst en nú er ljóst að kvikmyndataka heppnaðist svo vel sl. föstudag að væntanlega er ekki frekari þörf á nærveru Óðins og Týs.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./upplýsingaftr.


Kvikmyndaleikararnir Óðinn og Týr. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður.


Sigurður Ásgrímsson sprengjusérfræðingur, Clint og fleiri á Kjarvalsstöðum í svokölluðu "kick off partýi" vegna byrjunar á kvikmyndatökum hérlendis. Mynd: Sveinbjörg Guðmarsdóttir.


Dagmar og Clint við sama tækifæri. Mynd: Sveinbjörg Guðmarsdóttir.


Kristján Þ. Jónsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs á Kjarvalsstöðum. Hilmir Snær leikari í baksýn. Mynd: Sveinbjörg Guðmarsdóttir.


Clint ásamt ljósmyndaranum Sveinbjörgu Guðmarsdóttur, eiginkonu Kristjáns Þ. Jónssonar.