Aðgerðabáturinn Óðinn kemur rafmagnslausum bát til bjargar

Aðgerðabátur Landhelgisgæslunnar, Óðinn fór í sitt fyrsta björgunarútkall í dag. Óðinn var smíðaður af fyrirtækinu Rafnar ehf og afhentur Landhelgisgæslunni nú síðla sumars. Hefur aðgerðabáturinn verið mikið nýttur í eftirlit, löggæslu og æfingar en í dag fór hann í sitt fyrsta björgunarverkefni er hann dró bátinn Konna Konn að landi sem varð rafmagnslaus við Kerlingarskersbaujuna við Suðurnes á Seltjarnarnesi. Einn maður var um borð í Konna Konn og tókst honum að binda bátinn við baujuna meðan hann beið aðstoðar. Engin hætta var á ferðum og gekk vel að draga bátinn að landi. Áhöfnin á Óðni var að undirbúa brottför í fiskveiðieftirlit er ósk um aðstoð barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Brást áhöfnin skjótt við og var Óðinn kominn á vettvang rúmum hálftíma síðar. Óðinn hefur reynst afar vel í öll þau verkefni sem hann hefur verið nýttur í fram að þessu og sannaði enn frekar gildi sitt í aðgerðum dagsins.

 
Óðinn kominn með bátinn í tog.
 
 Dreginn að landi.
 
Óðinn kemur með Konna Konn að bryggju.