Sprengikúla fannst í vegkanti við bæinn Vatnsenda í Eyjarfirði

Fimmtudagur 28. júlí 2005.

Bóndi á Vatnsenda í Eyjarfirði fann nýverið sprengikúlu frá stríðsárunum í vegkantinum einn kílómetra frá bæjarhúsunum.  Hún taldi að kúlan gæti reynst hættuleg svo að hún kom henni í hendur lögreglunnar á Akureyri.  Lögreglan á Akureyri hafði þá strax samband við sprengjudeild Landhelgisgæslunnar sem sendi tvo sprengjusérfræðinga til að eyða kúlunni. 

Við athugun sprengjusérfræðinganna á staðnum þar sem kúlan fannst og miðað við ástand kúlunnar er líklegast að hún hafi borist þangað með malarefni sem notað var í viðgerð á veginum.  Við frekari athugun kom í ljós að malarefnið var tekið úr árbotni við Melgerðiseyri en þar var stór herflugvöllur í seinna stríði

Um var að ræða bandaríska sprengjukúlu af gerðinni M54 með hlaupvídd 37 mm sem var notuð í loftvarnabyssur.  Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar vara fólk við að snerta hluti sem gætu hugsanlega verið sprengjur. Hafa skal samband við lögreglu eða Landhelgisgæslu ef torkennilegir hlutir, sem gætu reynst vera sprengjur, finnast.

Adrian King
sprengjusérfræðingur


Mynd: Adrian King.