Sjúkraflug TF-LIF vegna slasaðs skipverja um borð í skemmtiferðaskipinu Saga Rose

Þriðjudagur 26. júlí 2005.

Skipstjóri skemmtiferðaskipsins Saga Rose óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar um kl. 22:40 í gærkvöldi vegna skipverja sem hafði skorist á hálsi.  Skipið var þá statt 69 sjómílur norðnorðaustur af Hornbjargi eða 200 sjómílur frá Reykjavík. Skipverjinn hafði misst mikið magn af blóði og erfiðlega gekk að stöðva blæðinguna.  

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, var þegar kölluð út og var skipstjóri Saga Rose beðinn að halda í átt til Ísafjarðar til móts við þyrluna.

TF fór í loftið kl. 23:45 og var komin að skipinu kl. 20 mínútur yfir eitt í nótt og voru sigmaður og læknir í áhöfn TF-LIF komnir um borð í skipið kl. 1:30.  Þeir bjuggu hinn slasaða undir flutning og hlúðu að honum.  Var líðan hans stöðug.  Búið var að flytja hann um borð í þyrluna kl. 1:48 og lenti TF-LIF við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 3:06.

Skemmtiferðaskipið Saga Rose er skráð á Bahamaeyjum.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingaftr.