Landhelgisgæslan hefur framleiðslu á rafrænum sjókortum - samningur gerður við Bresku sjómælingarnar

Þriðjudagur 26. júlí 2005.

 

Forstjóri Landhelgisgæslunnar skrifaði nýlega undir endurnýjun á tvíhliða samningi við Bresku sjómælingarnar (UKHO). Þar var m.a. bætt við samþykkt um að Ísland gangi til liðs við IC-ENC (International Centre for ENCs) og að IC-ENC sjái um dreifingu á rafrænum sjókortum fyrir Sjómælingar Íslands sem eru deild innan Landhelgisgæslunnar. 

 

Sjá frétt um þetta á heimasíðu IC-ENC á slóðinni:

 

http://www.ic-enc.org/page_news_articles2.asp?id=4

 

Einnig felst í samningnum að UKHO kemur fram fyrir hönd LHG/SÍ hvað varðar höfundaréttarmál gagnvart þeim fyrirtækjum sem nota gögn frá Landhelgisgæslunni/Sjómælingum Íslands.

 

LHG/SÍ hófu fyrir skömmu framleiðslu á rafrænum sjókortum (ENC, Electronic Navigational Chart). Þetta eru kort sem geta komið í stað hefðbundinna prentaðra sjókorta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, m.a. þeim að þau notist í ECDIS (Electronic Chart Display and Information System ) sjókorta- og upplýsingakerfi.

 

Á meðfylgjandi mynd eru Dr. Win Williams forstjóri Bresku sjómælinganna og Georg Kr. Lárusson forstjóri að undirrita framangreindan samning.

 


Texti: Níels Bjarki Finsen / Dagmar Sigurðardóttir