ALFA og BRAVO á þyrlur LHG

Fréttalína frá Flugdeild LHG 22.7.05

 

Kl. 1420 var þyrlan SIF kölluð út með forgangi ALFA vegna manns sem hafði fallið um 150 m í skriðum í Hvalvatnsfirði. Grjót hafði fallið á höfuð mannsins sem við það rotaðist og hrapaði af stað niður skriðuna. Staðnæmdist hann um 150 metrum neðar, þar sem félagar mannsins komu svo að honum nokkrum mínútum síðar. Þeir hlúðu að honum eftir megni og biðu aðstoðar. Maðurinn hlaut talsverða höfuðáverka og einhverja útlimaáverka.

Björgunarsveitir og lögregla frá Húsavík og af Eyjafjarðarsvæðinu komu á staðinn rétt á undan þyrlunni og voru búnir að búa hinn slasaða til flutnings. Einnig voru þeir búnir að bera manninn talsverða leið eftir stórgrýttri fjörunni að þeim eina lendingarstað sem mögulegur var þarna á staðnum. Hinn slasaði var fluttur um borð í þyrluna og var þegar í stað haldið til Akureyrar þar sem Metro-flugvél frá Flugfélaginu tók við honum og flutti til Reykjavíkur. Lent var á Akureyrarflugvelli kl.1641. Þyrlulæknirinn, Hörður Ólafsson, var einnig með í flugvélinni til að hlúa að hinum slasaða.

 

 

Kl. 2017 var þyrlan SIF svo kölluð út aftur, nú með forgangi BRAVO. Maður hafði orðið undir skurðgröfu við bæinn Fitjar í Skorradal. Læknir og sjúkrabíll voru komnir á staðinn og fluttu hinn slasaða til móts við þyrluna. Lenti þyrlan á lítilli eyri við Skorradalsvatn þar sem hinn slasaði var tekinn um borð og fluttur til Reykjavíkur.

Lenti þyrlan við gamla Borgarspítalann kl. 2108.

Aðeins liðu 15 mínútur frá útkalli þangað til þyrlan var komin á loft.