Tæknilegri endurskoðun grunnlínupunkta á Austurlandi lokið - Nú hægt að ganga formlega frá afmörkunarsamningi við Færeyjar um lögsögumörk milli landanna

Föstudagur 1. júlí 2005.

Landhelgisgæslan hefur nú lokið tæknilegri mælingu grunnlínupunkta á Austurlandi í samstarfi við fyrirtækið Loftmyndir ehf. sem er nauðsynleg forsenda þess að hægt verði að ganga formlega frá samkomulagi Íslands og Færeyja um afmörkun hafsvæðisins milli landanna. 

Halldór Ásgrímsson þáverandi utanríkisráðherra og Anfinn Kallsberg, lögmaður Færeyja, komust að samkomulagi um afmörkun umdeilda hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja 25. september 2002. Þar með var lokið afmörkun efnahagslögsögu Íslands gagnvart lögsögu nágrannalandanna, en áður hafði verið gengið frá afmörkun efnahagslögsögunnar gagnvart lögsögu Jan Mayen, Grænlands og Bretlands. Sagt er frá samningsgerðinni og aðdraganda hennar á heimasíðu utanríkisráðuneytisins á slóðinni:

http://utanrikisraduneyti.is/frettaefni/frettatilkynningar/nr/159

Forsenda fyrir því að hægt væri að ganga frá formlegum afmörkunarsamningi milli Íslands og Færeyja, sem næði til lögsögunnar allrar, var að ljúka tæknilegri endurskoðun grunnlínupunkta hvors lands um sig.  Landhelgisgæslan og Loftmyndir luku því verkefni seinni partinn í júní og sér utanríkisráðuneytið um að ganga formlega frá samkomulaginu við Færeyinga.

Verkefnið var framkvæmt þannig að áhöfn TF-SIF flaug með starfsmann á vegum Loftmynda ehf. út í eyjar og sker frá Reyðarfirði og suður að Jökulsárlóni og þar notaði hann GPS landmælingatæki til að staðsetja þau nákvæmlega (statisk mæling).  Annar starfsmaður Loftmynda keyrði um Austurlandið og setti upp viðmiðunarstöðvar í grunnstöðvapunktum Landmælinga Íslands.

Áhöfn varðskipsins Týs og þyrlunnar TF-SIF unnu að verkefninu af hálfu Landhelgisgæslunnar í samstarfi við sjómælingasvið stofnunarinnar.  Nauðsynlegt var að hafa varðskip á svæðinu þar sem þyrlan gat lent og tekið eldsneyti eftir þörfum.  

Páll Bjarnason tæknifræðingur sem starfar á Verkfræðistofu Suðurlands tók þátt í verkefninu sem undirverktaki Loftmynda ehf. með áhöfn TF-SIF og tók hann nokkuð skemmtilegar myndir sem hann hefur sett á heimasíðu Verkfræðistofunnar.  Þær er að finna á slóðinni:

http://www.verksud.is/heimasidur/palli/grunnlina/

Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á varðskipinu Tý tók meðfylgjandi myndir.


Áhöfn TF-SIF ásamt verktaka Loftmynda: Frá vinstri: Sverrir Erlingsson flugvirki, Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri, Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður í flugdeild, Sigurður Heiðar Wiium þyrluflugmaður og Páll Bjarnason tæknifræðingur undirverktaki Loftmynda ehf.


Jón Árni Árnason háseti á varðskipinu Tý að setja eldsneyti á TF-SIF.


TF-SIF að koma inn til lendingar á varðskipinu Tý.  Geirlaug Jóhannesdóttir háseti fylgist með við eldsneytistankinn.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingaftr.