Nýtt skipulag Landhelgisgæslunnar, stefnumótun og nýtt lagafrumvarp

Fimmtudagur 30. júní 2005.

Fjölmennur fundur starfsmanna Landhelgisgæslunnar var haldinn í flugskýli stofnunarinnar við Reykjavíkurflugvöll í gærdag til þess að kynna niðurstöður stefnumótunar- og greiningarvinnu sem unnin hefur verið síðan í febrúar sl. í samstarfi við sérfræðinga frá IMG ráðgjöf.  Meðal annars var kynnt nýtt skipurit Landhelgisgæslunnar. Einnig afhenti forstjóri Landhelgisgæslunnar dómsmálaráðherra tillögu Landhelgisgæslu Íslands að nýju lagafrumvarpi um stofnunina.  U.þ.b. 80 starfsmenn Landhelgisgæslunnar mættu á fundinn.

Við þetta tækifæri sagði forstjóri Landhelgisgæslunnar, Georg Kr. Lárusson:

,,Landhelgisgæsla Íslands var stofnuð árið 1926. Kjörorð stofnunarinnar, nú hin síðustu ár hafa verið “Föðurland vort hálft er hafið” og eru þau orð tekin úr sálmi Jóns Magnússonar frá árinu 1945. Þessi orð  segja margt um þá mynd sem landsmenn höfðu lengst af um Landhelgisgæsluna.  Starfsemin hefur verið afar tengd hafinu sem umlykur landið og hefur skapað sérstöðu þess umfram flest annað.  Björgun mannslífa úr sjó og barátta við að vernda sameiginleg auðæfi þjóðarinnar hefur styrkt ímynd Landhelgisgæslunnar og hún hefur átt sérstakan sess í hugum þjóðarinnar lengst af. 

Lög um Landhelgisgæslu Íslands eru nr. 25/1967. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þær miklu samfélagsbreytingar sem orðið hafa í heiminum síðan. Kalda stríðið er horfið, áhersla á umhverfismál og hryðjuverkaógn eru atriði sem höfðu þá engan veginn sama vægi og þau hafa nú.  Það er því ekki óeðlilegt að aðrar væntingar eru nú gerðar af stjórnvöldum og almenningi til Landhelgisgæslunnar en þegar lögin um Landhelgisgæsluna voru endurskoðuð síðast. 

Lögin hafa lítið breyst frá gildistöku og engar reglugerðir hafa verið settar á grundvelli þessara laga.  Mörg ný lög og reglugerðir snerta hins vegar starfsemina og fela Landhelgisgæslunni verkefni og skyldur.  Má þar meðal annars nefna lög um mengun sjávar og lög um eftirlit með veiðum í fiskveiðilögsögunni ofl. 

Lögbundið hlutverk Landhelgisgæslu Íslands er m.a. almenn löggæsla á hafinu og hjálp í sjávarháska, þar með talið sjúkraflutningar.  Enn fremur hjálp til afskekktra byggða, starfsemi Sjómælinga Íslands og sprengjuvarnir. Þá taka lögin til almannavarna en hlutverk Landhelgisgæslunnar hefur breyst hvað þann þátt varðar með flutning Almannvarna Ríkisins til Ríkislögreglustjóra.

Í ljósi þessa, hefur á síðustu mánuðum, verið unnið að því að gera nýjar tillögur að frumvarpi til laga um Landhelgisgæslu Íslands. Dagmar Sigurðardóttir, lögfræðingur hefur borið hitann og þungann af því verki en það hefur hún unnið í tengslum við mastersritgerð sína í  sjávarútvegsfræðum en hún útskrifaðist sem meistari í þeim fræðum frá HÍ síðasliðinn laugardag. Við munum hér á eftir afhenda dómsmálaráðherra þessar tillögur okkar til skoðunar.

Núverandi ráðamenn hafa sýnt mikinn skilning á hlutverki Landhelgisgæslunnar. Davíð Oddsson, fyrverandi forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni haustið 2003 að nauðsynlegt væri að laga starf Landhelgisgæslu Íslands að nýjum kröfum, ráðast í smíði nýs varðskips og gera áætlun um endurnýjun á flugflota hennar. Ríkisstjórnin samþykkti síðan þann 4. mars 2005 tillögu Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra um endurnýjun skipa og flugvéla Landhelgisgæslu Íslands. Í tillögunni fólst að fulltrúum dóms- og kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra verður falið að gera tillögur um kaup eða leigu á fjölnota varðskipi og eftirlitsflugvél, samningu útboðsgagna og undirbúning málsins að öðru leyti fyrir lokaákvörðun ríkisstjórnar Íslands. 

Þessi jákvæðu viðhorf breyta ekki þeirri skyldu stjórnenda og starfsmanna Landhelgisgæslunnar að gera sér grein fyrir stöðu sinni og hvert þeir hyggjast leiða stofnunina í framtíðinni. Það var á þessum grunni sem ákveðið var í febrúar 2005 að hefja markvisst stefnumótunarferli hjá Landhelgisgæslunni. Afrakstur þeirrar vinnu er birtur nú í dag.

Það er einlægur ásetningur minn að sú framtíðarsýn sem hér er sett fram verði leiðarljós okkar inn í framtíðina.  Ég vil þakka starfsmönnum öllum fyrir þeirra þátt í þessu vinnuferli sem var á allan hátt aðdáunarverður. Við hjá Landhelgisgæslunni erum stolt af arfleifð okkar en jafnframt tilbúin að takast á við ný og ögrandi verkefni sem bíða okkar í síbreytilegum heimi.  Þó hafið verði áfram mikilvægasti vettvangur okkar starfssvæðis höfum við skilgreint hlutverk Landhelgisgæslu Íslands á margan hátt upp á nýtt.  Eftir þá vinnu sem hér er kynnt  erum við betur til taks fyrir þá sem á okkur þurfa að halda.”

Eftir ræðu forstjórans var kynning á niðurstöðu stefnumótunarvinnunnar þar sem meðal annars kom fram að hlutverk Landhelgisgæslunnar og skipulag hafa verið skilgreind að nýju. Einnig voru kynntar tillögur framkvæmdahópa sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar í samstarfi við ráðgjafa IMG hafa skipað og tekið á málefnum sem ástæða hefur þótt til að efla og bæta.  Það voru hópar um kynningarmál Landhelgisgæslunnar, handbækur og verkferla, mennta- og þjálfunarmál, innra upplýsingaflæði og tengsl milli deilda og að síðustu hópur sem fjallaði um einkenni og einkennisföt.  Þessir hópar munu starfa áfram og hafa það markmið að hrinda í framkvæmd breytingum í góðu samstarfi við aðra starfsmenn Landhelgisgæslunnar.

Í skýrslu IMG um helstu niðurstöður stefnumótunarverkefnisins með Landhelgisgæslunni segir:

,,Meginniðurstaða þessa verkefnis endurspeglar ferðalag inn í framtíðina með nýjum einkunnarorðum Landhelgisgæslu Íslands og gildum.  Fyrirtækið segir nú skilið við einkunnarorðin ,,Föðurland vort hálft er hafið” sem vísa á nýrómantískan hátt til sjálfstæðisbaráttu ungrar þjóðar.  Í staðinn tekur það upp einkunnarorðin ,,Við erum til taks” sem vísar á breiðum grundvelli til starfsemi Landhelgisgæslunnar í nútíð og framtíð.  Það á við hvort sem vitnað er til leitar- og björgunar, löggæsluverkefna, mælijnga á öruggum siglingaleiðum eða annarra sérhæfðra verkefna sem starfsmönnum Landhelgisgæslunnar er trúað fyrir.  Kjarninn sem að baki því stendur er að vera til taks.

Rauði þráðurinn sem síðan bindur saman ólíkar starfseiningar og krefjandi verkefni endurspeglast í gildum Landhelgisgæslu Íslands sem eru ,,Fagmennska, öryggi, þjónusta”.

Stefnumótunarferlið sem unnið var eftir hér byggist á ítarlegu greiningarferli.

Annars vegar var haldinn tveggja daga greiningarfundur í lok febrúar 2005.  Þar komu fram tæplega 160 úrbótaatriði og mikill áhugi á að vinna að því að Landhelgisgæslan gengi í endurnýjun lífdaga.  Ennfremur að vinna að því að skilgreina hlutverk betur og óljóst skipulag.

Hins vegar var framkvæmd vinnustaðagreining, þar sem niðurstaðan var ekki ósvipuð og á greiningarfundinum, en tæplega 90% starfsmanna tóku þátt í henni.  Fengur hennar er ekki síst í nákvæmri greiningu á eðli vandamála eftir deildum þar sem auðvelt er að ganga í úrbótaferli.

Á grundvelli öflugrar greiningar og nýrrar sýnar á eðli Landhelgisgæslunnar hafa verið gerðar breytingar á skipulagi fyrirtækisins sem settar eru fram í nýju skipuriti.  Skilgreind hafa verið tvö kjarnasvið, aðgerðasvið og Sjómælingar Íslands og eitt stoðsvið, rekstrarsvið.  Hlutverk kjarnasviðanna er að vera til taks í þeim verkefnum sem Landhelgisgæslu Íslands eru falin hverju sinni, hvort sem er af löggjafanum eða vegna aðstæðna sem upp koma og bregðast þarf við með skjótum hætti. Hlutverki rekstrarsviðs og stoðeininga sem heyra beint undir forstjóra er síðan að sjá kjarnasviðunum fyrir nauðsynlegum tæknibúnaði og öðrum aðföngum til að þau geti sinnt hlutverki sínu.”

Sjá meðfylgjandi myndir sem teknar voru á fundinum í gær:


Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra er bjartsýnn á framtíð Landhelgisgæslunnar og tók jákvætt í þær breytingar og tillögur sem kynntar voru á fundinum. Á myndinni eru
Hákon Gunnarsson ráðgjafi hjá IMG, Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri, Svanhildur Sverrisdóttir starfsmannastjóri, Georg Kr. Lárusson forstjóri, Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra.


Starfsfólk Landhelgisgæslunnar, fulltrúar dómsmálaráðuneytisins og IMG.


Hákon Gunnarsson, Benóný Ásgrímsson, Svanhildur Sverrisdóttir sem skipulagði stefnumótunar- og greiningarvinnuna af hálfu Landhelgisgæslunnar í samstarfi við IMG ráðgjöf og Georg Kr. Lárusson forstjóri.


Ragnhildur Magnúsdóttir gjaldkeri kynnti niðurstöður framkvæmdahóps um innri upplýsingamál LHG.


Starfsmenn og aðrir fundarmenn.



Stefán Eiríksson skrifstofustjóri dómsmála- og löggæsluskrifstofu, Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./upplýsingaftr.