Fyrstu varðskipsnemar sumarsins hjá Landhelgisgæslunni

Þriðjudagur 21. júní 2005.

Landhelgisgæslan hefur í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga boðið nemendum úr 10. bekkjum grunnskólanna um land allt að fara með varðskipum Landhelgisgæslunnar í nokkurs konar starfsnám yfir sumartímann.  Nemendur geta sótt um að fá að vera varðskipsnemar í einni ferð með varðskipi.  Sex nemendur fá að fara með í hverja ferð og hafa færri komist að en sótt hafa um.

Varðskipsnemar fá sérstök einkennisföt og fá að kynnast öllum helstu störfum um borð í varðskipunum hvort sem er í vél, í eldhúsi, á þilfari eða á stjórnpalli.  Á meðfylgjandi mynd má sjá fyrstu nema sumarsins 2005 auk skipherra og yfirstýrimanns v/s Týs og sonar yfirstýrimannsins. Talið frá vinstri er Thorben Lund yfirstýrimaður, Stígur Berg Sophusson varðskipsnemi, Bergþór Lund yfirstýrimannssonur, Arnar Friðrik Albertsson varðskipsnemi, Ingvar Leví Gunnarsson varðskipsnemi, Símon Bergur Sigurgeirsson varðskipsnemi og Sigurður Steinar Ketilsson skipherra.


Myndina tók Vilhjálmur Óli Valsson.


Pálmi Jónsson 2. stýrimaður á varðskipinu Óðni er hér að kenna þeim Rakel S. Jónasdóttur  og Kristjáni K. Kristjánssyni varðskipsnemum, leyndardóma siglingafræðinnar. Þau eru að handleika sextant en hann er notaður til að mæla hæð himintungla og einnig til að mæla lárétt horn, allt til að staðsetja skipin rétt í sjókortum. Sextantinn var mikið notaður áður fyrr en nú hafa önnur tæki að mestu leyst hann af hólmi, til dæmis GPS-staðsetningartæki.


Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingaftr.