Dræmar veiðar á Reykjaneshrygg

Þriðjudagur 14. júní 2005.

Halldór Nellett skipherra á varðskipinu Óðni sem hefur verið við eftirlit á Reykjaneshrygg segir að þar séu að veiðum 50 togarar.  Flestallir eru þétt við mörk íslensku efnahagslögsögunnar í hálfgerðum línudansi.  Þar af eru 7 sjóræningjaskip frá Dóminíka. Einnig eru þar togarar frá aðildarlöndum NEAFC, frá Rússlandi, Spáni, Þýskalandi, Portúgal og Færeyjum.  Að auki eru 10 íslensk skip að veiðum á svæðinu.

Að sögn Halldórs hafa fiskveiðieftirlitsmenn frá varðskipinu margoft óskað eftir að fara um borð í hin svokölluðu sjóræningjaskip til eftirlits en ávallt verið neitað.  Segjast skipstjórar þeirra vera í fullum rétti við veiðar á úthafinu.  Halldór hefur bent þeim á að þeir séu að veiða á fiskveiðistjórnunarsvæði sem gerður hafi verið alþjóðasamningur um og að þeir séu að veiðum kvótalausir.

Eins og fram hefur komið er ekki fleira sem hægt er að gera gagnvart þessum sjóræningjaskipum annað en að tilkynna um þau til skrifstofu NEAFC sem hefur samband við fánaríki þeirra með tilmælum um að þeim verði gert að hætta veiðum.  Einnig er þessum skipum neitað um þjónustu í aðildarríkjum NEAFC.

Sjá heimasíðu NEAFC og reglur um hvað aðildarríkin mega gera gagnvart veiðum kvótalausra skipa á svæðinu:

http://neafc.org/measures/docs/NCPscheme-2005.pdf

Halldór segir veiðarnar á svæðinu vera dræmar og sem dæmi nefnir hann að við eftirlit um borð í tveimur rússneskum skipum í gær hafi komið í ljós að bæði höfðu verið að veiðum í 55 daga og hafði annað þeirra veitt 561 tonn en hitt 703 tonn.  Einnig var farið um borð í norskan togara í gær en hann hafði verið að veiðum í 53 daga og veitt 997 tonn.  Skipin eru að veiða úthafskarfa.

Að sögn Halldórs Nellett var gott samstarf milli áhafnar TF-LIF og skipverja á varðskipinu Óðni í nótt er TF-LIF sótti slasaðan skipverja af togaranum Ostrovets.  Varðskipsmenn voru komnir um borð í skipið tímanlega til að undirbúa hinn slasaða undir flutning og aðstoða við hífinguna. 

Sjá meðfylgjandi myndir frá áhöfn varðskipsins Óðins.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingaftr.


Rússneskt skip að löglegum veiðum á Reykjaneshrygg.


Rússneska skipið Omar að umskipa afla yfir í annað skip. Allt löglegt þar.


Sjóræningjaskipið Olchan.