Sjúkraflug í togarann Ostrovets á Reykjaneshrygg- Góð samvinna varðskipsins Óðins, þyrlunnar TF-LIF og þyrlu varnarliðsins

Þriðjudagur 14. júní 2005.

 

Umboðsmaður togarans Ostrovets frá Dóminíka hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 2:30 í nótt vegna skipverja sem hafði hlotið stungusár á kvið.  Samkvæmt upplýsingum frá togaranum hafði skipverjinn hlotið áverkana við fiskvinnslu um borð.  Skipið var þá statt á Reykjaneshrygg 268 sjómílur frá Reykjavík.  Umboðsmaðurinn var beðinn um að segja skipstjóra Ostrovets að sigla á fullri ferð í átt að landi.  Þar næst hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar samband við lækni í áhöfn TF-LIF og lét hann vita um ástand mannsins. 

 

Varðskipið Óðinn var við eftirlit á svæðinu og fóru tveir stýrimenn og tveir hásetar frá Óðni um borð í Ostrovets og hlúðu að skipverjanum og bjuggu hann undir flutning með þyrlu.  

 

TF-LIF fór í loftið kl. fjögur og fékk fylgd þyrlu varnarliðsins þar sem um svo langa vegalengd var að ræða.  Þegar þyrlurnar komu að skipinu var það statt 240 sjómílur frá Reykjavík.  Vel gekk að hífa manninn um borð og að sögn Magnúsar Arnar Einarssonar stýrimanns/sigmanns í áhöfn þyrlunnar var mikill munur að hafa skipverja frá Óðni um borð í Ostrovets til að aðstoða við hífinguna.  Það flýtti fyrir því þá þurfti sigmaður ekki að fara niður í skipið til að undirbúa hífinguna.  Það skipti einnig máli vegna flugþols þyrlunnar en þetta sjúkraflug var í lengsta lagi.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Ostrovets er hinn slasaði 28 ára karlmaður frá Rússlandi en flestir í áhöfn skipsins eru Rússar.  Áhöfn TF-LIF hafði náð hinum slasaða um borð um sexleytið í morgun og kom þyrlan til Reykjavíkur kl. 8:20.  Hinn slasaði var fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi. 

Eins og fram hefur komið í fréttum er togarinn Ostrovets eitt af sjóræningjaskipunum sem fjallað hefur verið um í fréttum.  Sjá lista (B-lista) yfir skip sem veiða ólöglega á fiskveiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar á heimasíðu NEAFC á slóðinni:

http://neafc.org/measures/index.htm

 

Meðfylgjandi myndir tók Sverrir Erlingsson flugvirki/spilmaður í áhöfn TF-LIF fyrir utan myndina inni í TF-LIF sem  Magnús Einarsson stýrimaður/sigmaður tók inni í þyrlunni.

 

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingaftr.

 

Séð frá TF-LIF. Togarinn Ostrovets og varðskipið Óðinn í baksýn.

 

Togarinn Ostrovets og léttbátur varðskipsins Óðins.

 

Læknir og flugvirki að störfum í TF-LIF.

 

Varnarliðsþyrlan fylgir í humátt á eftir TF-LIF.

 

Varðskipið Óðinn og togarinn Ostrovets.