Tundurdufli eytt á Eskifirði

Sunnudagur 12. júní 2005.

Skipstjórinn á Sólborgu ÞH-270 hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um kl. 10 í morgun og óskaði eftir aðstoð vegna tundurdufls sem komið hafði upp með veiðarfærum skipsins.  Skipið var þá statt í mynni Reyðarfjarðar.  Skipstjórinn fékk samband við sprengjusérfræðing Landhelgisgæslunnar sem leiðbeindi honum um hvaða ráðstafanir ætti að gera. 

Tveir starfsmenn sprengjudeildar héldu síðan austur á land og komu til Reyðarfjarðar um kl. 17.  Síðan flutti björgunarsveitin Ársól á Reyðarfirði sprengjusérfræðingana með gúmmíbjörgunarbát út í skipið Sólborgu.  Þar gerðu þeir duflið óvirkt.  Síðan var Sólborgu siglt til hafnar á Reyðarfirði.  Þar var duflið tekið í land og vegna sérstakra aðstæðna var duflið flutt til Eskifjarðar þar sem það var brennt.

Myndirnar tók Einar Guðberg Jónsson, varðstjóri í lögreglunni á Eskifirði.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingafulltrúi


Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar hafði gert duflið óvirkt er Sólborg kom til hafnar á Reyðarfirði.


Duflið var geymt í fiskikassa um borð í Sólborgu.


Sprengjusérfræðingur og aðstoðarmaður hans undirbúa eyðingu duflsins.


Duflið brennt í gryfju við Eskifjörð.