Dómsmálaráðherra tekur þátt í björgunarsýningu

Laugardagur 28. maí 2005.

Landhelgisgæslan var bæði með varðskip og þyrlu á Akureyri er Landsþing Slysavarnarfélagsins Landsbjargar fór fram um síðustu helgi. Sameiginleg björgunarsýning Landhelgisgæslunnar og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hófst með því að Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra fékk far með þyrlunni TF-LIF út að varðskipinu Tý og seig úr þyrlunni niður í skipið.

Sjá meðfylgjandi myndir sem áhöfn varðskipsins tók við það tækifæri.  Dómsmálaráðherra fylgdist með sýningunni frá varðskipinu en þar voru björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sýnd, TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, og léttbátar varðskipsins Týs.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingaftr.

 


Dómsmálaráðherra sígur úr TF-LIF niður í varðskipið Tý.


Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar tók á móti dómsmálaráðherra um borð í varðskipinu Tý.

Skip og bátar Landhelgisgæslunnar og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar raða sér upp fyrir æfingu á svokallaðri breiðleit á Pollinum á Akureyri. Skipin og bátarnir komu siglandi inn Pollinn og röðuðu sér upp hlið við hlið en þyrla Landhelgisgæslunnar flaug á undan.