Skrúfan af tundurspillinum Skeena endurheimt af hafsbotni

Fimmtudagur 12. maí 2005.

Eins og sagt var frá á heimasíðu Landhelgisgæslunnar í fyrra komu hingað til lands nokkrir eftirlifendur úr áhöfn kanadíska tundurspillisins Skeena í tilefni af því að 60 ár voru liðin frá því að Skeena strandaði við Viðey í ofsaveðri 25. október 1944.  Sjá frásögn af heimsókninni á eftirfarandi slóð:

http://lhg.is/displayer.asp?cat_id=4&module_id=220&element_id=1516

Að sögn Ásgríms Ásgrímssonar deildarstjóra hjá Landhelgisgæslunni fórust fimmtán manns er Skeena strandaði en þeir höfðu yfirgefið skipið í lífbátum og björgunarflekum.  Hundrað nítíu og átta manns, sem eftir urðu í skipinu, var bjargað með fluglínutækjum en björgunaraðgerðum var frækilega stjórnað af Einari Sigurðssyni skipstjóra sem oft hefur verið kenndur við skip sitt Aðalbjörgu RE.

Skeena náðist af strandstað og eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar var hún dregin frá Reykjavík og átti að fara í brotajárn erlendis en týndist úti á hafi og sökk.  Vegna vísbendinga um að djúpsprengjum hafi verið varpað fyrir borð þegar Skeena strandaði, gerði sprengjudeild Landhelgisgæslunnar í samstarfi við sjómælingadeild stofnunarinnar, ítarlega leit á hafsbotni umhverfis strandstað.  Er sú leit fór fram kom í ljós að önnur skrúfa skipsins og skrúfuöxull höfðu orðið eftir á hafsbotni er skipið strandaði.

Landhelgisgæslan lét kanadíska sendiráðið vita um fundinn og sendiráðið hafði samband við hermálayfirvöld í Kanada sem leiddi til þess að Landhelgisgæslan var beðin að ná skrúfunni af hafsbotni.  Vegna sjólags og veðurs hefur það ekki reynst unnt fyrr en nú og gekk vel að koma skrúfunni að landi í dag en áhöfn varðskipsins Óðins og sprengjudeild Landhelgisgæslunnar unnu að því ásamt Kjartani Haukssyni kafara, eiganda prammans sem sést á meðfylgjandi myndum.

Kanadíska sendiráðið ætlar að koma skrúfunni fyrir í Viðey, sem minnismerki um þá sem létust í sjóslysinu.

Landhelgisgæslan telur talsverðar líkur á því að skotfæri og jafnvel djúpsprengjur kunni að leynast á svæðinu þar sem Skeena strandaði og er mælst til þess að kafarar láti vera að athafna sig þar.

Sjá meðfylgjandi myndir DS sem teknar voru í dag þegar skrúfan var hífð upp á bryggju á Faxagarði, Reykjavíkurhöfn.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.


Skrúfan af Skeena hífð upp úr sjónum.


Jónas Þorvaldsson kafari og sprengjusérfræðingur sem fann skrúfuna þegar verið var að leita að djúpsprengjum á svæðinu þar sem Skeena strandaði.


Kafarar og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar ásamt Kjartani Haukssyni á prammanum sem dró skrúfuna að landi.


Léttbátur varðskipsins Óðins fylgdi prammanum til hafnar.



Óttar Sveinsson höfundur Útkallsbókanna og afkomandi Viðeyinga, Richard Tetu sendiherra Kanada á Íslandi, Sigrún Lilja Guðbjartsdóttir barnabarn Einars Sigurðssonar skipstjóra sem bjargaði áhöfn Skeena 1944, Örlygur Hálfdánarson bókaútgefandi og Viðeyingur, Kristbjörg starfsmaður kanadíska sendiráðsins og starfsmaður Málmsteypunnar sem kanadíska sendiráðið ætlar að fá til að útbúa minnismerkið.