Björgunarbátuinn Sigurvin bjargaði tveimur mönnum er línubáturinn Ásdís Ólöf sökk í nótt

Mánudagur 9. maí 2005.
 
Tilkynningaskyldan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um tvöleytið í nótt og lét vita að neyðarkall hefði borist frá línu- og handfærabátnum Ásdísi Ólöfu sem staddur var 6 sjómílur norður af Fljótavík.  Ásdís Ólöf er 5 tonna plastbátur sem gerður er út frá Siglufirði. 
 
Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út, með bráðaútkalli, og fór TF-LIF í loftið kl. 2:37.
 
Tilkynningaskyldan hafði aftur samband um þrjúleytið og lét vita að búið væri að bjarga tveimur skipverjum af Ásdísi Ólöfu um borð í björgunarbátinn Sigurvin frá Siglufirði og var þá TF-LIF snúið til baka til Reykjavíkur. Sigurvin kom með skipbrotsmennina til hafnar á Siglufirði kl. 8:25 í morgun.
 
Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.