Sjúkraflug TF-LIF til Sauðárkróks

Laugardagur 26. febrúar 2005.

Neyðarlínan hringdi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í morgun kl. 5:35 og tilkynnti um slys um borð í bátnum Baldri Karlssyni ÁR-06. Stjórnstöð var gefið samband við bátinn sem þá var staddur 30 sjómílur út af Hornafirði.  Einn skipverja hafði handleggsbrotnað og var talið að um opið beinbrot væri að ræða.  Skipstjórinn ætlaði að sigla í átt til Hornafjarðar til móts við þyrluna.

Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út en þegar hún var að leggja af stað hringdi Neyðarlínan aftur í stjórnstöðina og tilkynnti um bílslys í Skagafirði.  Þar hafði karlmaður slasast eftir útafakstur. Þyrlan fór í loftið kl. 6:30 og var ákveðið, þegar hún var komin hálfa leið í átt að bátnum, að hætta við sjúkraflug út á haf og senda þyrluna frekar til Skagafjarðar. Hún lenti á Sauðárkróki um kl. 8 í morgun og kom til baka til Reykjavíkur með hinn slasaða laust eftir kl. níu. 

Skipstjórinn á Baldri Karlssyni sigldi með slasaða skipverjann til hafnar og var hann fluttur á sjúkrahús.

Í gærkvöldi var þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út en þá var óttast um bát sem hafði tekið niðri við Hópsnes.  Útkallið var síðan afturkallað stuttu síðar er báturinn komst á flot á ný.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.