Tveggja skipverja af Jökulfellinu saknað - Fimm skipverjum var bjargað í nótt en fjórir hafa fundist látnir

Þriðjudagur 8. febrúar 2005.

Lík fjögurra skipverja af Jökulfelli hafa fundist í nótt og í morgun og er tveggja manna saknað. Eins og fram hefur komið var fimm skipverjum bjargað fyrir miðnætti.
 
Rúmlega þrjú í nótt tilkynnti björgunarstjórnstöðin í Þórshöfn í Færeyjum að ekki hafi fundist fleiri skipverjar á lífi en þeir fimm sem búið var að bjarga.  Björgunarmenn töldu sig þó hafa séð einn mann í sjónum en ekki var talið að hann væri á lífi. Fjögur leitarskip voru á svæðinu en þyrluáhafnir í hvíld.  Fyrirhugað var að senda þyrlurnar aftur af stað í birtingu.  Að sögn varðstjóra í björgunarmiðstöðinni í Þórshöfn hafði skipinu hvolft á 3-5 mínútum og höfðu þá allir skipverjar fengið björgunargalla.  Óvíst var hvort þeir komust allir út úr skipinu í tæka tíð. Óskað var eftir að fá flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, til leitar þar sem hún gæti komist yfir stærra svæði en þyrlurnar.  Búið var að skipuleggja leitarsvæði fyrir skipin.
 
TF-SYN fór í loftið kl. 8:30.  Tveir ,,útkikksmenn" frá Flugbjörgunarsveitinni voru með í för.  Áætlað var að flugvélin yrði á svæðinu um kl. 10:20. Skömmu síðar bárust þær upplýsingar frá björgunarmiðstöðinni í Þórshöfn að eitt lík hefði fundist í nótt en fimm skipverja væri enn saknað. 
 
Er kl. var ellefu höfðu 3 lík fundist en þau voru tekin um borð í færeyska varðskipið Tjaldrið.  Fimm skipbrotsmenn sem komust lífs af voru um borð í varðskipinu Vædderen en þriggja skipverja var enn saknað.   Tuttugu mínútum síðar hafði eitt lík til viðbótar fundist. 
 
Áhöfn TF-SYN hóf leit kl. 10:10 í morgun og er búist við að hún komi aftur til Reykjavíkur eftir kl. 17 í dag.
 
Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.