Sex skipverja af flutningaskipinu Jökulfelli saknað - Skipinu hvolfdi 57 sjómílur norðaustur af Færeyjum

Mánudagur 7. febrúar 2005.

Flutningaskipinu Jökulfelli hvolfdi í kvöld 57 sjómílur norðaustur af Færeyjum eða 260 sjómílur austsuðaustur af mynni Reyðarfjarðar.  Í áhöfninni eru 11 manns, Rússar og Lettar.  Fimm mönnum hefur verið bjargað en ekki er vitað um afdrif sex skipverja.

Björgunarstjórnstöðin í Þórshöfn í Færeyjum hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 20:14 og tilkynnti að sjálfvirkt neyðarkall hefði borist frá flutningaskipinu Jökulfelli sem Samskip eru með á leigu. Reynt var að ná sambandi við skipið með talstöð en ekkert svar barst.  Samkvæmt sjálfvirka neyðarkallinu var skipið statt 57 sjómílur norðaustur af Færeyjum. Óskað var eftir upplýsingum um símanúmer um borð í Jökulfelli.

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar höfðu uppi á símanúmerinu og reyndu árangurslaust að hringja í það.  Síðan var björgunarstjórnstöðin í Færeyjum upplýst um símanúmerið.

Björgunarmiðstöðin í Færeyjum hafði aftur samband um kl. 21 og tilkynnti að ekkert hefði heyrst frá Jökulfelli. Skip á svæðinu voru beðin um að sigla í átt að þeirri staðsetningu sem neyðarkallið barst frá.  Áætlað var að fyrsta skip næði þangað innan tveggja klukkustunda.  Óskaði björgunarstjórnstöðin í Færeyjum jafnframt eftir því að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kæmi boðum til leigutaka og eigenda Jökulfells.

Enn var haft samband frá björgunarmiðstöðinni í Þórshöfn kl. 21:12 en þá hafði björgunarmiðstöðin í Aberdeen látið vita um neyðarsendingu frá skipinu sem barst um gervihnött kl. 20:59.  Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar veitti upplýsingar um fjölda skipverja og símsendi einnig upplýsingar um skipið.

Samkvæmt ástandsskýrslu sem var send frá Færeyjum kl. 21:43 var búið að senda danska eftirlitsskipið Vædderen, færeysku varðskipin Brimil og Tjaldrið og rússneska togarann Viktor Mirinov á svæðið.  Þyrla frá Vædderen var einnig lögð af stað og var áætlað að hún yrði á svæðinu um kl. 22.

Er stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði samband við björgunarmiðstöðina í Þórshöfn kl. 22:48 var þyrlan búin að finna Jökulfell en þá var skipið á hvolfi. Áhöfn þyrlunnar var að hífa menn upp úr sjónum og önnur þyrla á leiðinni frá Færeyjum.  Reiknað var með fyrsta skipi á svæðið eftir 45 mínútur.  Landhelgisgæslan bauð aðstoð með því að senda flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, til leitar í birtingu ef á þyrfti að halda.

Önnur ástandsskýrsla frá björgunarstjórnstöðinni í Færeyjum kom kl. 23:10. Þá var búið að bjarga fimm mönnum um borð í dönsku þyrluna en 6 manna saknað.  Önnur björgunarþyrla var á leiðinni og var reiknað með að hún yrði á svæðinu kl. 23:25.  Veður á svæðinu var suðsuðvestan 15 metrar á sekúndu, mikill sjór en skyggni gott.

Flutningaskipið Jökulfell er 2.469 brúttótonn og eru Samskip með það á leigu.  Skipið sem er skráð á eynni Mön í Bretlandi var á leið frá Liepaja í Lettlandi til Reyðarfjarðar með 2.000 tonna farm af stáli og nokkra gáma samkvæmt upplýsingum frá Samskipum.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlafulltrúi