Þyrla frá danska eftirlitsskipinu Triton sækir færeyskan slasaðan sjómann

Þriðjudagur 12. janúar 2005.

 

Björgunarstjórnstöðin í Grönnedal á Grænlandi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um hádegisbilið og tilkynnti að skipverji á færeyska rækjutogaranum Sólborgu TN-245 hefði slasast er hann fékk stóran spilkrók í höfuðið og missti við það meðvitund.  Skipið var þá statt um 250 sjómílur vestnorðvestur af Íslandi inni í grænlenskri lögsögu. Svæðið kallast Dohrn-banki og er innan björgunarsvæðis Landhelgisgæslunnar.

 

Danska eftirlitsskipið Triton var þá statt vestur af landinu.  Skömmu eftir að tilkynning um slysið barst hafði björgunarstjórnstöðin í Grönnedal aftur samband og lét vita að þyrlan frá Triton myndi sækja sjómanninn. 

Þyrlan hélt af stað um kl. 16 og er áætlað að hún lendi í Reykjavík um kl. 19.  Talið er að sjómaðurinn sé höfuðkúpubrotinn.


Upphaflega bárust upplýsingar um slysið frá björgunarstjórnstöðinni í Þórshöfn í Færeyjum til björgunarstjórnstöðvarinnar í Grönnedal á Grænlandi sem hafði samband við björgunarstjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Mjög gott samstarf er á milli þessara björgunarstjórnstöðva.  Í gildi er samstarfssamningur milli Landhelgisgæslunnar og danska sjóhersins, m.a. á sviði björgunarmála, og skýrir það hvers vegna þyrlan frá Triton sá um sjúkraflugið í dag.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.