Fjölgeislamælir notaður við öryggisleit í Reykjavíkurhöfn

Miðvikudagur 15. desember 2004.

Sprengjudeild og sjómælingadeild Landhelgisgæslunnar héldu sameiginlega æfingu 10. desember sl. í tilefni af komu skipa úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins daginn eftir.  Verið var að æfa neðansjávarleit við hafnarbakkana í Vatnagörðum þar sem fyrirhugað var að skipin leggðust að bryggju.  Hafnaryfirvöld heimiluðu æfinguna.

 

Að sögn Ásgríms Ásgrímssonar deildarstjóra mælingadeildar sigldu sjómælingamenn, sprengjusérfræðingar og kafarar Landhelgisgæslunnar á sjómælingabát Landhelgisgæslunnar, Baldri, inn í Vatnagarða.  Þar notaði áhöfn bátsins fjölgeislamæli til að rannsaka hafsbotninnn við hafnarbakkana og út frá þeim.  Fjölgeislamælirinn var notaður til að spara tíma við köfun.  Mælirinn nam tvær þústir sem voru ekki í samræmi við umhverfið neðansjávar og gátu kafarar þá farið beint niður á staðinn, sem var á um 9 metra dýpi, til að kanna hvað þar væri að finna.

 

Í ljós kom að þetta voru tvær dekkjasamstæður sem venjulega eru notaðar sem fríholt við hafnarbakkana. Kafarar og áhöfn Baldurs náðu að koma böndum í dekkin og síðan voru þau hífð upp á bryggjuna því þau geta skemmt skrúfubúnað djúpristra skipa.

 

Þetta sýnir hversu fjölbreytt verkefni er hægt að vinna með fjölgeislamælinum.  Hann nýtist ekki eingöngu við dýptarmælingar heldur einnig við neðansjávarleit af ýmsu tagi t.d. í öryggisskyni, vegna skipskaðarannsókna, neðansjávarskoðunar á hafnarmannvirkjum og fl. 

 

Landhelgisgæslan hefur haft fjölgeislamælinn til umráða undanfarin ár vegna samstarfssamnings við Hafrannsóknarstofnun bandaríska sjóhersins.  Stefnt er að því að Landhelgisgæslan eignist slíkan mæli.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

 

 

Myndir.  Önnur dekkjasamstæðan hífð með krana sjómælingabátsins Baldurs. Eins og sjá má er dekkjasamstæðan ekki mikil um sig en sást þó greinilega í fjölgeislamælinum þó svo að hún væri að hluta til grafin í leðju á botninum.