Öryggisnámskeið fyrir sendifulltrúa Rauða krossins

Miðvikudagur 20. október 2004.

Þórir Guðmundsson sviðsstjóri hjá Rauða krossinum segir frá öryggisnámskeiði fyrir sendifulltrúa Rauða krossins sem haldið var í Bláfjöllum um helgina á heimasíðu samtakanna með eftirfarandi orðum:

Starfsmenn sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar, sérsveitar lögreglunnar og sjálfboðaliðar Rauða krossins lögðu sig alla fram um að gera öryggisnámskeið fyrir sendifulltrúa sem raunverulegast um helgina. Núverandi og tilvonandi sendifulltrúar auk nokkurra fréttamanna tóku þátt í námskeiðinu sem Kristín Ólafsdóttir verkefnisstjóri á landsskrifstofu skipulagði.

Á síðustu árum hafa hættur sem hjálparstarfsmönnum eru búnar aukist verulega, eins og tölur um árásir á þá sýna. Byssumenn í Írak og Afganistan hafa beint spjótum sínum að starfsmönnum hjálparfélaga jafnt sem fréttamönnum og öðrum.

„Það er mikilvægt að halda slík námskeið til þess að það fólk sem við sendum til verkefna sé eins vel undirbúið og hugsast getur,” sagði Kristín við þátttakendur undir lok námskeiðsins á sunnudag.

Meðal fyrirlesara voru Gerald Anderson, öryggissérfræðingur bandaríska Rauða krossins, og Patrick Brugger yfirmaður öryggismála hjá Alþjóða Rauða krossinum.

Öryggisnámskeiðið í Bláfjöllum er liður í því að búa sendifulltrúa Rauða kross Íslands undir störf á hættustöðum. Auk þess fara sumir á frekari námskeið hjá Alþjóða Rauða krossinum. Á hverju ári sendir félagið milli 15 og 25 manns til starfa erlendis, suma þeirra á átakasvæði. Nú eru til dæmis fjórir sendifulltrúar Rauða kross Íslands í Súdan, þar sem borgarastyrjöld geisar.

Adrian King fór fyrir liði sprengjusérfræðinga frá Landhelgisgæslunni og sýndi þátttakendum í námskeiðinu hvernig varast megi jarðsprengjur. Talið er að rúmlega 100 milljón jarðsprengjur séu í jörð um heim allan auk þess sem ótrúlegur fjöldi sprengja, sem hefur verið varpað úr flugvél en ekki sprungið, bíður þess að börn og aðrir fari sér að voða.

Sérsveitarmenn lögreglunnar í Reykjavík settu gíslatöku og skotárás á svið á eftirminnilegan hátt og fóru yfir mikilvæg atriði í samningaviðræðum við byssumenn. Með því að skjóta af byssu í gegnum bíl sýndi lögreglan hversu tilgangslaust er að reyna að fela sig á bak við bíla. Kúlurnar fóru í gegn eins og bíllinn væri úr smjöri.

Á námskeiðinu var einnig farið yfir notkun staðsetningartækja, talstöðva, gervitunglasíma og bíla sem notaðir eru við hjálparstörf. Starfsmenn Símans mættu með sín tæki á staðinn og Toyota lánaði stóra jeppa á námskeiðið í því skyni.

Sjá heimasíðu Rauða krossins á slóðinni:  http://www.redcross.is


Mynd Landhelgisgæslan/Ágúst Magnússon: Adrian King sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar leiðbeinir þátttakendum um hvernig ber að varast jarðsprengjur. Sjá eftirlíkingu af jarðsprengju í jörðinni.

Mynd Landhelgisgæslan/Adrian King: Jónas Þorvaldsson sprengjusérfræðingur sýnir þátttakendum bílasprengju og hvernig ber að leita í bílum að slíkum hlutum.