Fosfórblys kom upp með veiðarfærum fiskiskipsins Draupnis

Þriðjudagur 12. október 2004.

Skipverjar á fiskiskipinu Draupni höfðu samband við sprengjudeild Landhelgisgæslunnar í gær vegna torkennilegs illa lyktandi hlutar sem kom upp með veiðarfærum skipsins er það var að veiðum á Selvogsbanka.

Skipið kom um miðnættið til Þorlákshafnar og fóru þá sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar um borð og rannsökuðu hlutinn.  Það reyndist vera fosfórblys af gerðinni Mark 58.  Slík blys eru notuð við leit og björgun og herir innan NATO nota þau einnig til að merkja svæði.

Blysin gefa frá sér reyk og birtu sem hægt er að greina í allt að 5 km. fjarlægð.  Blysið sem hér um ræðir er eitt af þeim stærstu sinnar tegundar og inniheldur bæði sprengiefni og fosfór.  Fosfór er rokgjarnt efni sem brennur þegar það kemst í snertingu við andrúmsloft.  Það veldur skærum loga sem getur orðið allt að þrír metrar að lengd og af honum kemur hvítur reykur sem er mjög eitraður.  Slíkum blysum er venjulega kastað í sjóinn úr þyrlum eða flugvélum.

Jafnvel þótt slík blys virki eins og ætlast er til verða ávallt eftir leifar af óbrunnum fosfór sem getur kviknað í hvenær sem er, sérstaklega ef hann nær að þorna.  Þess vegna var skipverjum ráðlagt að geyma blysið úti á dekki á einöngruðum og öruggum stað þar til sprengjusérfræðingar kæmu að fjarlægja það.  Sprengjusérfræðingarnir fjarlægðu blysið og eyddu því.  Blysið hafði ekki virkað sem skyldi en í því voru sprungur sem ollu því að fosfórinn lak út. 

Af og til finnast slík blys á ströndum landsins.  Mikilvægt er að fólk láti vera að snerta þau og hafi samband við Landhelgisgæsluna eða lögreglu sem fyrst.

Á meðfylgjandi myndum, sem Adrian King sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni tók, má sjá blysið sem kom upp með veiðarfærum Draupnis.

Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.