Sprengjuleit á Reykjanesi

Þriðjudagur 12. október 2004.

Landhelgisgæslan stóð fyrir sprengjuleit á svæðinu norðvestur af Stapafelli á Reykjanesi í samstarfi við Varnarliðið í síðustu viku.  Alls tóku 25 starfsmenn vopnadeildar Varnarliðsins þátt í sprengjuleitinni.  Slíkar leitir eru gerðar reglulega á æfingarsvæðum og sprengjueyðingarsvæðum á Reykjanesi sem Varnarliðið hefur haft til afnota.  Við leitina fannst  mikið af sprengifimum hlutum, sprengjubrotum, skotfærum og púðri. 

Svæðið norðvestur af Stapafelli var notað sem sprengjueyðingarsvæði fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.  Landhelgisgæslan notar svæðið einnig af og til að eyða sprengjum fyrir varnarliðið þar sem Landhelgisgæslan tók alfarið við þeim málaflokki fyrir Varnarliðið árið 2002.

Á þessu ári hefur Landhelgisgæslan staðið fyrir leit á svæðinu í kringum Kleifarvatn, Vogaheiði og Stapafell með góðum árangri.  Fundist hafa yfir 100 hlutir sem hefur verið eytt.

Svæðið sem leitað var í síðustu viku er mjög vel merkt með skiltum en ekki afgirt.  Það er mikilvægt að fólk sem finnur torkennilega hluti á svæðinu láti vera að snerta þá og láti Landhelgisgæsluna eða lögreglu vita við fyrsta tækifæri.

Á meðfylgjandi myndum sem Adrian King sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni tók má sjá starfsmenn bandaríska sjóhersins sem tóku þátt í leitinni og kveikjubúnað og forsprengju sem fannst við leitina í síðustu viku. 

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.