Glókollur heimsækir varðskipið Ægi

Fimmtudagur 30. september 2004.

Fugl sem ber heitið Glókollur flaug inn um brúargluggann á varðskipinu Ægi í gærmorgun en ákvað svo að taka flugið til lands í gærkvöldi eftir góða dvöl um borð yfir daginn.  Samkvæmt upplýsingum Ævars Petersen forstöðumanns Reykjavíkurseturs Náttúrufræðistofunar Íslands kemur Glókollur upphaflega frá Evrópu en hann hóf að verpa hér á landi fyrir 8 árum.  Að sögn Ævars fóru þeir að verpa í skógræktarreitum víða um land og síðan hefur nánast orðið sprenging í útbreiðslu þeirra.  Vart eru dæmi um að ný fuglategund hafi breiðst svo ört út hér á landi. Glókollur er minnsti fugl sem verpt hefur hér á landi, minni en Músarindill.

Ekki er vitað annað en að Glókollur sé staðfugl því talsvert finnst af honum hér að vetrarlagi.   Það getur þó verið að eitthvað af fuglunum fljúgi til hlýrri landa yfir vetrartímann.  Yfirleitt eru góðar aðstæður hér að vetrarlagi miðað við Norður-Skandinavíu þar sem þeir verpa einnig en þar eru þeir farfuglar.  Á Íslandi, þar sem vetur hafa verið mildir til margra ára, virðast þessir fuglar komast vel af.

Glókollur er minnsti fugl Evrópu og vegur aðeins 5-6 grömm.  Á meðfylgjandi myndum, sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók, má sjá Glókoll en þar hefur hann komið sér vel fyrir hjá Sæunni Maríu Pétursdóttur viðvaningi á varðskipinu Ægi.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.

Glókollur á höfði Sæunnar Pétursdóttur

Glókollur er minnsti fugl Evrópu og vegur aðeins 5-6 grömm.